- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tækifærið bauðst fyrr en ég reiknaði með

Markus Pütz t.v., Arnór Þór Gunnarsson fyrir miðri mynd með Fabian Gutbrod íþróttastjóra sér til vinstri handar. Ljósmynd/ heimasíða Bergsicher HC
- Auglýsing -

„Við höfum fengið smjörþefinn síðustu vikurnar,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson léttur í bragði í samtali við handbolta.is í gær eftir að hann skrifaði undir tveggja ára samning um þjálfun þýska handknattleiksliðsins Bergischer HC. Arnór Þór tók tímabundið við þjálfun Bergischer HC ásamt Markus Pütz um miðjan apríl. Reynslan af samstarfi þeirra þótt svo góð að forráðamenn félagsins vildu fyrir allan muni halda þeim áfram.

Á brattann var að sækja

„Við tókum við í ómögulegri stöðu og gerðum hvað við gátum til þess að breyta því sem hægt var að breyta. Þær tókust vel en því miður var útlitið hjá okkur ekki gott þegar við tókum við, sex leikir eftir og við langt á eftir öruggu sæti. Á brattann var að sækja. Að sama skapi má segja að það hafi verið ótrúleg staðreynd að við áttum ennþá möguleika á að halda sæti okkar þegar síðasta umferðin fór fram á sunnudaginn,“ sagði Arnór Þór.

Þegar ég kom inn í apríl þá var aðalhugsun mín að hjálpa til. Ekki flaug að mér að taka við eftir tímabilið.

„Þegar á hólminn var komið í síðasta leiknum þá var Flensburg-liðið einfaldlega sterkara en við, ekki síst í síðari hálfleik. Við tókum ákveðna áhættu í leik okkar í síðari hálfleik sem ekki gekk upp. Leikurinn fór eins og hann fór,“ sagði Arnór Þór.

Ekki er öll nótt úti

Saman réru Arnór Þór og Pütz lífróður með leikmönnum Bergischer fyrir áframhaldandi veru í efstu deild. Þegar upp var staðið vantaði herslumuninn upp á. Sem stendur lítur út fyrir að Bergischer HC leiki í næst efstu deild á næstu leiktíð en það kann að breytast vegna þess að forráðamenn Bergischer HC sækja mál gegn keppnisleyfi sem veitt var HSV Hamburg þrátt fyrir afleita fjárhagsstöðu síðarnefnda liðsins.

Ekki í okkar höndum

„Það er ekki víst hvort við verðum í efstu deild eða í annarri deild. Málið er ekki í höndum okkar þjálfaranna eða leikmanna. Eina sem við getum gert er að búa okkur sem best undir næsta keppnistímabil, í hvorri deildinni sem við verðum,“ segir Arnór Þór.

Ég er spenntur að takast á við ný verkefni á mínum ferli. Tækifærið bauðst fyrr en ég reiknaði með en stundum verður maður að stökkva úti í djúpu laugina

Eru teymi

Arnór Þór segist hafa lagt þunga áherslu á að hafa Markus Pütz með sér og að saman mynduðu þeir þjálfarateymi. Pütz var árum saman aðstoðarþjálfari Sebastian Hinze sem var þjálfari Bergischer í meira en áratug með góðum árangri, frá 2012 til 2022. Spurður hvort hann hafi strax í apríl velt fyrir sér að taka við þjálfun til lengri tíma sagði Arnór Þór svo ekki hafa verið.

Vildi hjálpa til

„Þegar ég kom inn í apríl þá var aðalhugsun mín að hjálpa til. Ekki flaug að mér að taka við eftir tímabilið. Þegar á leið tímann sem við vorum saman með liðið þá fundum við okkur vel í þessu hlutverki og hvernig leikmenn tóku á móti okkur þá togaði meira í mig að halda áfram.

Við Pütz ætlum að halda áfram á sömu braut sem einn maður, jafn rétt háir ef svo má segja. Samstarf okkar gekk vel enda þekkjumst við afar vel eftir samvinnu, ég sem leikmaður og hann sem þjálfari. Við skiljum hvorn annan mjög vel,“ sagði Arnór Þór sem hlakkar til að hella sér á fullt í þjálfarastarfið, það fyrsta eftir að hann hætti sem leikmaður fyrir ári.

Arnór segir að ef Bergischer heldur sæti sínu í deildinni verði færri breytingar á leikmannahópnum en ef það verður að bíta í súra eplið og leika í 2. deild.

„Ég er spenntur að takast á við ný verkefni á mínum ferli. Tækifærið bauðst fyrr en ég reiknaði með en stundum verður maður að stökkva úti í djúpu laugina,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson nýráðinn þjálfari þýska handknattleiksliðsins Bergischer HC.

Sjá einnig:

Þjálfarar – helstu breytingar 2024

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -