Haukar unnu bosníska meistaraliðið HC Izvidac með þriggja marka mun, 30:27, á Ásvöllum í dag í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla. Síðari viðureignin verður í Ljubuski í Bosníu eftir viku. Ljóst er að Haukar verða að halda vel á spilunum til að komast áfram gegn öguðu og vel spilandi liði HC Izvidac sem er nær eingöngu skipað Króötum.
Leikstjórnandi liðsins, Milan Vukšic, er bráðsnjall og útsjónarsamur. Eins er stórskyttan Diano Neris Cesko ekki að ástæðulausu markahæsti leikmaður keppninnar til þessa. Hann skoraði 10 mörk í dag.
Haukar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12.
Haukar tóku frumkvæðið strax í leiknum. Þeir reyndu að keyra hraðann upp til hins ítrasta en gekk framan af illa að hrista leikmenn HC Izvidac almennilega af sér. Það tókst þó þegar á leið. Ekki síst fyrir tilstilli Arons Rafns Eðvarðssonar markvarðar Hauka sem átti stórleik. Samherjar hans í sókninni hefðu getað nýtt betur frábæra frammistöðuna og náð meira en þriggja marka forskoti fyrir hálfleik, 15:12. Ekki var á vísan róið að Aron Rafn verði jafn vel í síðari hálfleik, enda kom það á daginn.
Haukar fór afar vel af stað í síðari hálfleik og voru komnir með fimm marka forskot, 19:14, eftir um átta mínútur. Nokkur einföld mistök í sóknarleiknum urðu þess valdandi að leikmennn HC Izvidac nálguðust á nýjan leik og minnkuðu muninn ítrekað í tvö mörk.
Ellefu mínútum fyrir leikslok tók Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka leikhlé í stöðunni, 25:23. Leikmenn HC Izvidac höfðu rétt áður átt kjörið tækifæri til þess að minnka muninn í eitt mark.
Á síðustu 10 mínútunum sveiflaðist staðan aðeins á milli. Haukar hefðu getað unnið með fjögurra til fimm marka mun með smá heppni en eins munaði litlu að liðið ynni aðeins með tveggja marka mun því HC Izvidac átti síðustu uppstilltu sókn leiksins. Hún rann hinsvegar út í sandinn vegna góðs varnarleiks Hauka.
Mörk Hauka: Skarphéðinn Ívar Einarsson 6, Birkir Snær Steinsson 5, Össur Haraldsson 4, Þráinn Orri Jónsson 4, Andri Fannar Elísson 4, Sigurður Snær Sigurjónsson 3, Geir Guðmundsson 2, Adam Haukur Braumruk 1, Hergeir Grímsson 1, Hinrik Hugi Heiðarsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 19, 41,3%.
Mörk HC Izvidac: Diano Neris Cesko 10, Milan Vuksic 4, LukaSevic 4, Luka Bubalo 4, Filip Odak 3, Zvonimir Lukenda 1, Kermin Semic 1.
Varin skot: Haris Suljevic 12, 31% – Marko Culjak 0.