„Ferðlagið gekk bara nokkuð vel og allt var eins og það á að vera. Við erum búin að funda og æfðum í keppnishöllinni í gær,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals í stuttu samtali við handbolta.is í morgun. Valur mætir MSK IUVENTA Michalovce í undanúrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í Michalovce í Slóvakíu klukkan 16 í dag. Valsliðið kom til Michalovce fyrir miðjan dag í gær eftir næturstopp í Katowice í Póllandi og rútuferð þaðan til áfangastaðar í Slóvakíu.
Ekki tapað leik á tímabilinu
MSK IUVENTA Michalovce lék til úrslita í Evrópubikarkeppninni á síðasta ári en tapaði fyrir ATTICGO Bm Elche frá Spáni. Síðan hefur MSK IUVENTA Michalovce ekki tapað leik í Evrópukeppninni. Sömu sögu er að segja um Val.

Hafa fína breidd
„Andstæðingurinn er mjög öflugur og eru þær mjög líkamlega sterkar. Þær eru með góðar skyttur í báðum stöðunum fyrir utan. Eins er miðjumaður þeirra mjög klókur. Varnarlega spila þær 6-0 vörn framarlega á vellinum. Þær hafa fína breidd og spila yfirleitt á mörgum leikmönnum,“ sagði Ágúst Þór og bætti við:
„Við þurfum að ná í alvöru frammistöðu hér á útivelli og hef ég fulla trú á að við gerum það. Stelpurnar eru vel einbeittar, léttar og um leið staðráðnar í að gera vel í fyrri leiknum,“
sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals við handbolti.is.
Hermt er að hægt verði að hofa á leikinn gegn skráningu á eftirfarandi slóð: https://amcmikro.cz/
Enn sem komið virðist það þó vera verulega málum blandið hvort hægt verði að nálgast útsendinguna hér á landi.