- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valsmenn voru ekki í vandræðum með Stjörnuna

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Valsmenn halda ótrauðir áfram að leggja andstæðinga sína í Olísdeild karla í handknattleik. Í kvöld lágu Stjörnumenn í valnum í upphafsleik sjöttu umferðar, 34:28. Valur hefur þar með unnið sex fyrstu leiki sína í deildinni. Fátt bendir til þess að liðinu verði eitthvað á í messunni á sigurbrautinni á næstunni, alltént hér heima.

Stjarnan er þar með áfram næst neðst með tvö stig og hætt er við að róðurinn verði áfram þungur.

Munurinn á liðunum var sex mörk þegar fyrri hálfleikur var að baki, 15:9. Staðan hefur hæglega getað verið 20:9, slíkir voru yfirburðir Valsmanna sem léku frábæran varnarleik auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson var vel með á nótunum í markinu. Hann var með 50% markvörslu í fyrri hálfleik auk þess að skora einu sinni.

Áfram voru yfirburðir Vals miklir í síðari hálfleik. Mestur varð munurinn níu mörk, 30:21, áður en heimamenn slökuðu aðeins á klónni.

Vignir Stefánsson og Agnar Smári Jónsson léku ekki með Val vegna meiðsla og Róbert Aron Hostert kom lítið við sögu fyrr en á síðasta fjórðungi leiktímans. Magnús Óli Magnússon var frábær.

Egill Magnússon og Starri Friðriksson voru ekki með Stjörnunni að þessu sinni vegna meiðsla. Án þeirra varð róðurinn enn þyngri. Mikið mæddi á Tandra Má Konráðssyni en því miður komust nokkrir sterkir póstar liðsins lítt áfram. Má þar m.a. nefna Pétur Árna Hauksson.

Markvarslan var ljósi punkturinn í leik Stjörnunnar. Einnig var gaman að sjá ungu mennina Jón Ásgeir Eyjólfsson, Rytis Kazakevicius og Ísak Loga Einarsson. Mikil efni þar á ferðinni.

Staðan og næstu leikir í Olísdeild karla.

Mörk Vals: Benedikt Gunnar Óskarsson 8/6, Magnús Óli Magnússon 6, Allan Norðberg 4, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 3, Ísak Gústafsson 3, Róbert Aron Hostert 3, Andri Finnsson 2, Björgvin Páll Gústavsson 1, Jóel Bernburg 1, Alexander Peterson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 11, 33,3% – Arnar Þór Fylkisson 0.

Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 9, Jón Ásgeir Eyjólfsson 4, Hergeir Grímsson 3, Ísak Logi Einarsson 2, Pétur Árni Hauksson 2, Hrannar Bragi Eyjólfsson 2, Rytis Kazakevicius 2, Sigurður Jónsson 1, Haukur Guðmundsson 1, Kristján Helgi Tómasson 1, Benedikt Marinó Herdísarson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 11/1, 32,4% – Adam Thorstensen 7, 38,9%.

Handbolti.is er í Origohöllinni og fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -