„Mér fannst við bara alls ekki vera klárir í slaginn fyrstu fimmtán mínúturnar. Ekkert ósvipað og í síðasta leik á móti Val. Við vorum lengi í gang,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar sem gekk léttur í spori út úr Kaplakrika í kvöld eftir að hafa unnið FH, 32:29, í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla.
„Okkur tókst að kveikja á okkur eftir leikhléið sem við tókum eftir um fimmtán mínútur og lékum mjög vel eftir það allt til leiksloka. Varnarleikurinn batnaði mikið auk þess sem fleiri tóku af skarið í sóknarleiknum. Síðari hálfleikur var framúrskarandi af okkar hálfu og niðurstaðan er góður sigur,“ sagði Gunnar sem lauk lofsorði á varnarleik liðsins en FH skoraði aðeins 16 mörk á síðustu 43 mínútum leiksins.
„Svo varði Jovan mjög mikilvæg skot á lokakaflanum sem vógu mjög þungt. Þorsteinn var frábær í sókninni en fleiri lögðu í púkkið í sókninni og var svo sem kominn tími til,“ sagði Gunnar sem varaði við bjartsýni, aðeins einum leik væri lokið og víst væri að FH-ingar muni mæta dýrvitlausir í næsta leik sem fram fer að Varmá á miðvikudagskvöld og hefst klukkan 19.40.
Hátt í 2.000 áhorfendur voru á leiknum í Kaplakrika í kvöld. Búast má við svipuðum fjölda á miðvikudaginn að Varmá.