-Auglýsing-

Karl og Bogdan byggðu meistaralið og sköpuðu þjálfara!

- Auglýsing -

 
Þegar ég var að grúska, einu sinn sem oftar, í gömlum heimildum um handknattleik á Íslandi, kemst ég oftast í gamlan og skemmtilegan heim og minningarnar streyma fram. Þegar ég skoðaði forleikinn á Íslandsmótinu 1986-1987, sá ég fyrirsögnina í DV sem ég samdi á sínum tíma; Lærisveinar Bogdans eru byrjaðir að „predika“! Greinin var um það að fjórir landsliðsmenn hins sigursæla liðs Víkings sem pólski þjálfarinn Bogdan Kowalczyk stjórnaði, voru þjálfarar liða í 1. deildarkeppninni.

Þegar Bogdan kom til Víkings 1979, kom hann með nýja vídd í handknattlkeikinn hér heima. Það má segja að hann hafi komið með nýja sýn og tekið við merkinu af Karli G. Benediktssyni, sem er faðir nútímahandknattleiksins á Íslandi. Karl og Bogdan lyftu handknattleiknum upp á hærra plan og meira en það; Þeir hreinlega sköpuðu stóran hóp leikmanna, sem gerðust þjálfarar, fóru út á akurinn og uppiskáru ríkurlega.

Braut blað í handboltanum

 Brotið var blað í íslenskum handknattleik þegar Kalli kom heim frá Danmörku 1960, þar sem hann stundaði nám í íþróttafræðum í Vejle á Jótlandi.

Karl kom heim með nýjar hugmyndir, sem áttu eftir að gjörbreyta handknattleiknum á Íslandi og má segja að nútímahandknattleikur hafi þá verið tekinn upp á Íslandi. Karl lét lið sín leika kerfisbundinn handknattleik. Hann lét menn leika í föstum stöðum og tímasetningar voru í leiknum. Þegar hann kom með sínar hugmyndir og fylgdi þeim fast eftir, var bylting í íslenskum handknattleik – fyrst með Framliðið og síðan með landsliðið. Undir stjórn Karls þróuðu leikmenn Fram upp línuspil og leikmáti liðsins gerði það afar sigursælt. Leikmáti liðins breytist í kerfisbundinn handknattleik. 

Karl G. Benediktsson, Fram, hefur snúið á vörn FH og skorar með gegnumbroti í leik að Hálogalandi. Sigurður Einarsson, á línu, fylgist með. FH-ingarnir eru Birgir Björnsson, Kristján Stefánsson og Einar Sigurðsson.

Lagði grunninn að „Gulltímabili”

 Karl, þjálfari og leikmaður, er maðurinn sem lagði grunninn að „Gulltímabili” karlaliðs Fram í handknattleik 1962-1972 er liðið náði að stöðva sigurgöngu hins öfluga meistaraflokks FH – og varð Íslandsmeistari sjö sinnum á ellefu árum eftir geysilega harða og oft spennandi baráttu við FH-inga, sem er eitt sögulegasta tímabil í handknattleikssögu Íslands. 

Leikmenn Fram sem tóku þátt í Evrópuleiknum gegn Skovbakken. Aftasta röð frá vinstri: Ágúst Þór Oddgeirsson, Jón Friðsteinsson, Guðjón Jónsson, Tómas Tómasson, Erlingur Kristjánsson og Ingólfur Óskarsson. Miðröð: Sigurður Einarsson, Karl G. Benediktsson, þjálfari, Hilmar Ólafsson, fyrirliði og Gylfi Jóhannesson. Fremsta röð: Atli Marínósson, Þorgeir Lúðvíksson og Sigurjón Þórarinsson.

Línuspil hættulegt vopn – æft í hádeginu

  Karl byrjaði þá strax á því að leggja línurnar og byggja upp vel útfærðan og skipulagðan leik bæði í vörn og sókn.  „Við æfðum upp ýmsar leikfléttur og kerfi mjög vel og síðan var stöðugt verið að bæta ofan á það. Það þótti mörgum einkennilegt að sjá hvernig við lékum með þrjá línumenn í hinum litla Hálogalandssal. Þannig leikaðferð var gjörsamlega óþekkt hér á landi. Línumennirnir voru ekki mikið á ferðinni, enda leikvöllurinn þröngur. Línumennirnir léku eftir kerfunum og voru þeir staðbundnir og færðu sig  til eftir þeim. Við vorum með margar mjög góðar skyttur, þannig að andstæðingar okkar fóru langt út á völlinn á móti þeim. Við það skapaðist oft töluvert svigrúm fyrir okkur línumennina,“ sagði línumaðurinn snjalli Sigurður Einarsson, sem sagði að Karl hafi aldrei staðnað. „Þegar sjöundi meistaratitill Fram var í höfn 1972 var Karl byrjaður með hádegisæfingar. Það var í fyrsta skipti sem handknattleikslið á Íslandi æfði í hádeginu; þrisvar í viku.“

Bogdan Kowalczyk, þjálfari Víkings og landsliðsins.

Bogdan með grunnæfingar

 Þegar Bodgan kom til Víkings 1979, var hann fyrsti erlendi þjálfarinn sem var ráðinn í fullt starf á Íslandi. Bogdan, sem varði mark Pólverja gegn Íslendingum á Ólympíuleikunum í München 1972, þekkti vel til íslenskra handknattleiksmanna. Þegar hann kom hingað hafði hann þjálfarð pólska liðið Slask í sex ár og var liðið alltaf meistari í Póllandi. Bogdan sá strax að hans biði mikil vinna. Hann vildi að lið sitt léki hraðan og öflugan handknattleik. Til þess að gera það yrði hann að auka við æfingar og byrja strax á grunnæfingum, sem gerðu leikmenn  líkamlega sterka og tilbúna fyrir átök. Já, og árangurinn lét ekki á sér standa. Víkingur varð nær ósigrandi lið og varð meistari 1980, 1981, 1982 og 1983, en það ár varð Víkingur einnig bikarmeistari.

 Eins og Karl, þá gerðist Bogdan landsliðsþjálfari Íslands og náði árangri.

Guðmundur Þórður Guðmundsson handknattleiksþjálfari. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Lærisveinar Bogdans þjálfarar

  Fjórir lærisveinar Bogdans voru þjálfarar í tíu liða 1. deild 1986-1978. Viggó Sigurðsson þjálfaði FH, Árni Indriðason var með Víkingsliðið, Páll Björgvinsson var hjá Stjörnunni og Ólafur Jónsson  þjálfaði KR. Hjá hinum liðunum voru: KA: Brynjar Kvaran, Haukar: Sigurbergur Sigsteinsson, Fram: Per Skarup, Ármann: Hilmar Björnsson, Breiðablik: Geir Hallsteinsson og Valur: Jón Pétur Jónsson. Allt voru þetta landsliðsmenn (nema Per og Hilmar), sem höfðu lært mest af göldrum handknattleiksins hjá þjálfurum sínum. Fóru ekki á þjálfaranámskeið, til að mennta sig.

 Árni gerði Víkinga að Íslandsmeisturum 1986 og 1987.

Eitt af meistaraliðum Víkinga árunum í kringum 1980. Efri röð f.v. Guðjón Guðmundsson, Ólafur Jónsson, Árni Indriðason, Þorbergur Aðalsteinsson, Steinar Birgisson, Bogdan Kowalczyk, Sigurður Gunnarsson, Hilmar Sigurgíslason, Jón Valdimarsson þá formaður handknattleiksdeildar Víkings. Fremri röð f.v.: Heimir Karlsson, Óskar Þorsteinsson, Ellert Vigfússon, Páll Björgvinsson, Kristján Sigmundsson, Guðmundur Þórður Guðmundsson.

 Víkingurinn Þorbergur Aðalsteinsson var þetta keppnistímabil þjálfari Saab í Svíþjóð. Síðan áttu nokkrir aðrir Víkingar og lærisveinar Bogdans eftir að gerast þjálfarar, eins og Sigurður Gunnarsson, sem lék með Coronas Tres De Mayo á Spáni (Tenerife) þetta tímabil, Heimir Karlsson og Guðmundur Þórður Guðmundsson, sem átti eftir að vera landsliðsþjálfari Íslands, Danmerkur og Barein, ásamt að þjálfa lið á Íslandi, Þýskalandi og Danmörku með góðum árangri.

Karl byggði upp

 Karl G. Benediktsson kom einnig nálægt uppbyggingu á þjálfurum frá Víkingi; Viggó, Ólafi, Páli og Þorbergi, sem hann þjálfaði er Víkingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta skipti 1975.

 Margir leikmenn Fram, sem Karl þjálfari, urðu síðan þjálfarar; Ingólfur Óskarsson, Guðjón Jónsson, Sigurður Einarsson, Gunnlaugur Hjálmarsson, Sigurbergur Sigsteinsson, Axel Axelsson, Björgvin Björgvinsson og Arnar Guðlaugsson.

Þjálfarar með meistaragráðu

 Flestir handknattleiksþjálfarar núna í dag, sem þjálfa lið í 1. deild og fara með lið í Evrópukeppni, fara í EHF Mastercoach handknattleiksnámskeið til að öðlast full réttindi, æðstu þjálfaragráðu í Evrópu. Evrópusambandið (EHF) aðstoðar HSÍ við námskeiðin, en á þau koma kennarar frá EHF og einnig frá Háskólanum í Reykjavík. Til að geta sótt námskeið verða þjálfarar að hafa lokið 3. stigs þjálfaramenntun HSÍ og ÍSÍ.

Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net

 Þess má geta að enginn úr þjálfarateymi Stjörnunnar eru með EHF-þjálfaragráðu, þannig að Stjarnan varð að kalla á Patrek Jóhannesson til að vera á leikskýslu sem þjálfari liðsins í Evrópuleikjunum gegn rúmenska liðinu CS Minaur Baja Mare. Dómarar leiksins kölluðu á Patta og ræddu við hann áður en vítakastskeppnin fór fram í leiknum í Garðabæ.

 Hér kemur listinn yfir þjálfara í 1. deild keppnistímabilið 2025-2026:

Valur: Ágúst Þór Jóhannsson.
Stjarnan: Hrannar Guðmundsson.
Fram: Einar Jónsson.
Haukar: Gunnar Magnússon.
ÍBV: Erlingur Richardsson.
Afturelding: Stefán Árnason.
FH: Sigursteinn Arndal.

HK: Halldór Jóhann Sigfússon.
Þór Ak.: Daniel Birkelund, Noregi.

ÍR: Bjarni Fritzson.
Selfoss: Carlos Martin Santos, Spáni.

KA: Andri Snær Stefánsson.

* Ágúst Þór, Grótta/KR, Hrannar, Afturelding, Erlingur, ÍBV, Sigursteinn, FH, Halldór Jóhann, KA/Fram, Bjarni ÍR/Akureyri handboltafélag og Andri Snær, KA/Akureyri handboltafélag, léku með liðunum. 

 * Erlingur var landsliðsþjálfari Hollands og Sádi Arabíu. Halldór Jóhann hefur þjálfað hjá Fram, Selfossi, FH, landslið Barein og dönsku liðin TTH Holstebro og Nordsjælland. Þá hefur hann leikið með þýsku liðunum Essen og Friesenheim.

 Kveðja og góða helgi,

Sigmundur Ó. Steinarsson.

-Sigmundur hefur á liðnum árum skrifað margar greinar, flestar sögulegs eðlis, fyrir handbolti.is. M.a. um upphafsár íslenskra handknattleiksmanna í Þýskalandi og um aðdraganda og þátttöku karlandsliðsins á Ólympíuleikunum 1972. Hægt að nálgast þær allar með því að smella hér. 

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -