„Það er fínt að brjóta aðeins upp tímabilið með tveimur landsleikjum,“ sagði markvörðurinn þrautreyndi Björgvin Páll Gústavsson í samtali við handbolta.is spurður eftir landsleiknum við Eistlendinga í Laugardalshöllinni í kvöld klukkan 19.30. Um er að ræða fyrri viðureign þjóðanna um sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í janúar á næsta ári. Síðari viðureignin fer fram í Tallinn á laugardaginn.
Björgvin Páll hefur í mörg horn að líta með Val sem kominn er í úrslit Evrópubikarkeppninnar auk þess að standa í ströngu með Val úrslitakeppni Olísdeildarinnar. Nú eru það landsleikirnir sem eiga allan hug Björgvins Páls, leikreyndasta leikmanns landsliðsins um þessar mundir. Hann tekur þátt í sínum 270. landsleik í kvöld.
Nokkrir tugir miða er enn til sölu á leikinn í kvöld – Ísland – Eistland, miðasala.
Alltaf mikið undir í Höllinni
„Það er alltaf eitthvað stórt undir þegar við leikum fyrir framan okkar fólk í Laugardalshöll. Nú er stórmót undir og við ætlum okkur að grípa það tækifæri sem er í boði. Ég er bara spenntur að takast á við Eistlendinga. Ekki er nema ár síðan við mættum þeim síðast með landsliðinu. Einhverjir leikmanna eistneska landsliðsins voru andstæðingar okkar Valsmanna í Pölva í Evrópubikarum í vetur auk þess þá þekki ég einn leikmann liðsins mjög vel frá fyrri tíð,“ sagði Björgvin Páll og átti þar við Mait Patrail sem var samherji Björgvin Páls hjá Kadetten Schaffhausen í Sviss fyrir meira en áratug.
„Eistlendingar geta verið mjög erfiðir ef þeir hitta á sinn leik. Það getur verið erfitt að eiga við þá.”
Okkur langar á næsta stórmót
Björgvin Páll sagðist ekki reikna með öðru en að uppselt verði á leikinn eins og venjulega. „Við verðum að geta fyllt Laugardalshöll úr því að við erum að biðja um nýja þjóðarhöll. Við viljum sýna öllum að okkur langar á næsta stórmót,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson markvörður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is.
Nokkrir tugir miða er enn til sölu á leikinn í kvöld – Ísland – Eistland, miðasala.
Sjá einnig:
HM-sæti í boði í Höllinni – fjölskylduhátíð með stákunum okkar
Tveir leika með íslenskum félagsliðum
Í heimi þjálfarans eru engir leikir auðveldir
Elvar kallaður inn í landsliðið – fjórir eru frá vegna meiðsla
Myndir úr gullkistu Þóris: Snorri og Arnór, Alfreð, Guðmundur og Wilbek í KA-heimilinu