Forráðamenn Aftureldingar hafa ákveðið að selja heimaleikjarétt sinn gegn Tatran Presov í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla. Báðar viðureignir liðanna fara þar með fram í Presov í Slóvakíu undir lok næsta mánaðar.
Mikill kostnaður við þátttökuna knýr menn til þess að leika báða leikina ytra. Auk þess þá dugðu tekjur af heimaleiknum við Nærbø á síðasta laugardag ekki til þess að standa undir kostnaði við þátttökuna í 2. umferð keppninnar.
Til stendur að fyrri leikur Aftureldingar og Tatran Presov fari fram í Presov föstudaginn 24. nóvember og síðari leikurinn sunnudaginn 26. nóvember. Leiktímar hafa ekki verið staðfestir á vefsíðu Handknattleikssambands Evrópu , EHF.
Aftureldingarmenn áforma að fljúga til Búdapest og fara þaðan til Presov í Slóvakíu.
FH, ÍBV og Valur eiga einnig fyrir höndum leiki í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar.
Andstæðingur FH: Sezoens Achilles Bocholt
Andstæðingur ÍBV: Förthof UHK Krems
Austurríki, Belgía, Slóvakía og Úkraína bíða íslensku liðanna