- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

​​​​​Guðmundur Þórður á að blása í herlúðrana!

Guðmundur Þórður Guðmundsson í ham á hliðarlínunni í einum leikja Íslands á HM. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Strákarnir okkar eru komnir heim eftir harða keppni á Skáni og í Gautaborg. Þar fögnuðu þeir fjórum sigrum, en máttu þola tvö töp. Fyrra tapið, gegn Ungverjum, var stórt slys, en tap gegn sterkum Evrópumeisturum Svía, var nokkuð sem strákarnir réðu ekki við. Eins og gegn Ungverjum, fóru þeir illa að ráði sínu í dauðafærum. Fyrirliðinn Aron Pálmarsson og Ólafur Guðmundsson gátu ekki leikið með gegn Svíum vegna meiðsla og Ómar Ingi Magnússon meiddist í byrjun leiks. Það munaði um þessa þrjá leikmenn, en þess má geta að Haukur Þrastarson, þriðja skyttan vinstra megin (Aron og Ólafur) meiddist fyrir HM.

Guðmundur Þórður og Ýmir Örn Gíslason bera saman bækur sínar. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

 Stefnan var sett á að komast í 8-liða úrslit, en því miður tókst það ekki. Framundan eru leikir um farseðilinn á Evrópukeppni landsliðs í Þýskalandi 2024. Það vilja margir gera breytingar á stjórn landsliðsins; að segja Guðmundi Þórði Guðmundsson, landsliðsþjálfara, upp störfum. Pistlahöfundur er ekki sammála. Guðmundur er einn öflugasti þjálfari okkar; mikill baráttumaður, sem þolir ekki að tapa. Guðmundur Þórður er samningsbundinn HSÍ til 2024 og á hann að sjálfsögðu að blása í herlúðrana fyrir næstu verkefni landsliðsins. 

  Óvænt „Knockout!“

 Það er sárt að sjá 18 mínútna slæmur lokakafli í leik gegn Ungverjalandi hafi orðið Íslandi að falli í heimsmeistarakeppninni í handknattleik í Svíþjóð og Póllandi 2023. Íslendingar höfðu verið með Ungverja í heljargreipum, 25:19, þegar leikurinn snérist við í höndunum á þeim. Ungverjar náðu að jafna, 28:28, og tryggja sér sigur, 28:30. Strákarnir voru ekki sjálfum sér líkir og átta marka ótrúleg sveifla var á þessum leikkafla, 3:11. 

 Vonbrigðin urðu mikil hjá Strákunum okkar, sem þurftu að fara að treysta á aðra, til að komast í 8-liða úrslit, sem stefnt var að í upphafi.

 Ef – já, þetta stóra EF – leikmenn hefðu náð að halda sjó og leggja Ungverja að velli, var Ísland komið á lygnan sjó, átti leiki eftir gegn Suður-Kóreu, Grænhöfðaeyjum, Brasilíu, auk leiks gegn Evrópumeisturum Svía.

 HM er eins og barátta í hnefaleika hringnum. Í jafnri baráttu er stigum safnað saman, til að ná yfirhöndinni. Þegar menn eru búnir að safna vel í sarpinn, getur komið óvæntur vinstrihandarkrókur; „Knockout!“ Þetta högg telur meira en öll stigin sem voru komin í hús. Vinstri handar krókurinn smellhitti!

 Eins og hendi var veifað gegn Ungverjum, voru strákarnir komnir undir í mikilli baráttu. Jafnvel sterkustu vígi falla í slíkum slag.

Gunnar Magnússon aðstoðarþjálfari og Guðmundur Þórður. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

 Guðmundur Þórður Guðmundsson, var búinn að gera allt rétt, þegar áfallið kom, sem riðlaði öllu. Strákarnir misstu jafnvægið og nýttu ekki ótal gullin tækifæri, sem þeir voru að öllu eðlilegu vanir að nýta.

 Sigur gegn Portúgal var kominn í hús og sigur gegn Ungverjum í sjónmáli. Guðmundur ætlaði sér að keyra á Portúgala og Ungverja; leggja þá að velli með sínum sterkustu leikmönnum, þannig að hann gæti farið að tefla öllum sínum mönnum fram úti á vellinum. Það gekk því miður ekki upp.

 Þetta er ekki í fyrsta skipti sem skellur kemur á stórmótum. 

 Menn muna eftir HM í Danmörku 1978, þegar bjartsýnin var geysileg í herbúðum landsliðsins. Menn spáðu Íslandi verðlaunasæti og tveir leikmenn spáðu Íslandi heimsmeistaratitli. Landsliðið var eins og nú, fyrir áfalli þegar Ólafur Einarsson, ein öflugasta skytta liðsins handarbrotnaði í Noregi á leiðinni á HM, en áður hafði Ólafur Benediktsson, markvörðurinn snjalli, orðið úr leik. Allt gekk á afturfótunum á HM, sem var kölluð „Fjórir svartir dagar í Danmörku!“

 Þarna var ekki í fyrsta skipti og ekki í það síðasta, sem leikmenn spáðu Íslandi GULLI! Það blundaði síðast í nokkrum mönnum á dögunum, þegar haldið var til Skánar.

 Þá muna menn eftir B-keppninni í Frakklandi 1981; þegar leikur tapaðist gegn Svíum. Allt hrundi!

Elliði Snær Viðarsson t.v. og Guðmundur Þórður. Mynd/EPA

 Þá er ógleymanleg ferð landsliðsins á ÓL í Seoul 1988, þegar talað var um verðlaunapall og Ólympíugull eftir að strákarnir lögðu Sovétmenn að velli í Laugardalshöllinni stuttu fyrir ÓL. Bjartsýnin var mikil; rætt var um ÓL-gull. Sigur í tveimur fyrstu leikjunum á ÓL, síðan tap gegn Svíum, 14:20. Allt hrundi!

 Strákarnir komu síðan sterkir til leiks 1989, þegar þeir fögnuðu sigri í B-keppninni í Frakklandi. Þar lék Guðmundur Þórður stórt hlutverk.

 Sem betur fer varð ekkert hrun nú í HM í Svíþjóð og Póllandi. En það var sárt að sjá þegar sérfræðingarnir gerðu lítið úr leikmönnum Íslands; að þeir hafi fagnað sigrinum á Brasilíumönnum, eftir erfiðan leik. Já, og eftir sárt tap fyrir Svíum. Sérfræðingarnir ætluðust til að ekkert líf væri í strákunum okkar! Að þeir ættu að vera skömmustulegir, en ekki fagna sigri!

 Pistlahöfundur man einnig vel eftir því, þegar Strákarnir okkar máttu þola tap fyrir Ungverjum í 8-liða úrslitum á HM í Kumamoto í Japan 1997, 25:26. Þeir gáfust ekki upp frekar en í Svíþjóð á dögunum, heldur lögðu Spánverja og Egypta að velli og tryggðu sér fimmta sætið.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, baráttumaðurinn mikli, var og er ekki frægur fyrir að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Hér tekur hann þýsku stórskyttuna Erhard Wunderlich úr umferð á fyrstu árum sínum sem landsliðsmaður. Hann kunni tökin á þeim!

 Guðmundur Þórður er keppnismaður

 Nú vilja sumir sérfræðingar Guðmund Þórð burt. Manninn sem hefur náð bestum árangri með landsliðið; silfursæti á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronssæti í Evrópukeppni landsliða 2010 í Austurríki.

 Guðmundur Þórður er mikill keppnismaður og undirbýr sig vel fyrir hverja orrustu, ákveðinn í að láta sitt ekki eftir liggja þegar á hólminn er komið. Hann kallar ekki allt ömmu sína í hörðum bardögum.

 Pistlahöfundur sá að Guðmundur Þórður skynjaði miklar væntingar fyrir HM, sem settu þrýsting og spennu á leikmennina hans. Hann þekkti vel hvernig miklar væntingar geta leikið menn. Hann var ekki ánægður með hvernig aðvörunarbjöllurnar hringdu. Vitnað var í Danann Mathias Gidsel, Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfara Þýskalands, og fleiri í  fjölmiðlum, sem töluðu um að Ísland gætu farið á verðlaunapall.

 Guðmundur Þórður var óhress með þær væntingar sem byrjað var að byggja upp í kringum lið sitt. Hann sagði að Alfreð ætti fyrst og fremst að hugsa um sitt lið, heldur en að byggja upp væntingar hjá Íslendingum.

Með taktíktöfluna og veltir fyrir sér næsta leik í stöðunni. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

 Ungt og efnilegt lið

 Íslendingar eiga nú gott lið, sem er skipað ungum og stórefnilegum leikmönnum, sem eiga framtíðina fyrir sér. Það var ekki rétt að fara fram á of mikið af strákunum.

 Það eru ekki nema tveir leikmenn sem leika með besta liði Þýskalands og einu af bestu liðum Evrópu, Magdeburg. Það er ekki hægt að ætlast til að þeim, Ómari Inga og Gísla Þorgeiri, að þeir dragi vagninn leik eftir leik.

 Einn sérfræðingurinn sagði í byrjun desember, að ef allt gangi upp á HM þá geti Ísland orðið heimsmeistari.

Vatnsopinn er hressandi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

 Guðmundur Þórður átti í fullu fangi með að slá á fingurnar á mönnum.

 Sérfræðingar og og fjölmiðlar voru framarlega í að Íslendingar og leikmenn færu fram úr sér. Þúsundir Íslendinga fóru til Svíþjóðar til að dansa sigurdansinn, fyrst á Skáni og síðan í Gautaborg. Það var stórkostlegt að sjá þann stuðning. Strákarnir, Guðmundur Þórður og hans aðstoðarmenn þurfa nú á stuðningi að halda. Ekki fá þeir það frá „sérfræðingum.“

 Spálíkan spáði rétt – 12. sæti

 Dr. Peter O’Donoghue, prófessor við íþróttafræðideild Háskólands í Reykjavík, útbjó spálíkan fyrir HM. Þar greindi hann möguleika Íslands miðað við frammistöðu þátttökuþjóða síðastliðin tvö ár. Spá hans leiddi í ljós að 20% líkur væri á því að íslenska liðið kæmist í 8-liða úrslit. Hann spáði því einnig að það væri líklegast að Ísland myndi lenda í 12.-14. sæti.

 Ísland hafnaði í 12. sæti. 

* Pistlahöfundur þurfti ekki spálíkan er hann spáði Íslandi í 9.-16. sæti. Hann þótti þá ekki nægilega jákvæður.

Tack för mig,

Härliga tider!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -