„Þegar verkefnin eru orðin of mörg þá kemur að því að maður verður að viðurkenna það og staldra við,“ segir Patrekur Jóhannesson í samtali við nýjasta þátt Handkastsins spurður um ástæður þess að hann hætti óvænt á laugardaginn þjálfun karlaliðs Stjörnunnar þegar aðeins fjórar umferðir eru liðnar af keppnistímabili Olísdeildar. Patrekur segir ákvörðun sína ekki hafa verið tekna í fljótheitum heldur þvert á móti að mjög yfirveguðu ráði.
Störfum hlaðinn
Allt frá því að Patrekur tók við þjálfun karlaliðs Stjörnunnar sumar 2020 hefur hann bætt á sig verkefnum fyrir deildina og er m.a. íþrótta- og rekstrarstjóri yngri flokka handknattleikdeildar Stjörnunnar. Fleiri verkefni hafa bæst við, sem flest hver tengjast ekki beint þjálfun meistaraflokks karla eða annarra flokka.
Besta lausnin
„Ákvörðunin var ekki tekin eftir leikinn við KA á föstudaginn. Ég var búinn að fara vel yfir málin með Baldvin framkvæmdastjóra félagsins og Sigurjóni formanni. Okkur fannst þetta besta lausnin eftir að hafa rætt vel saman,“ segir Patrekur ennfremur í mjög áhugaverðu viðtali þar sem kemur m.a. fram að skipt hafi verið um stjórn handknattleiksdeildar í sumar. Einnig sá handknattleiksdeildin í sumar á bak sínum helsta styrktaraðila. Til viðbótar gangi verr með hverju ári að fá fólk til sjálfboðaliðastarfa. Þess vegna er nóg að gera utan vallar.
Er ekki hættur
„Ég er ekki hættur að þjálfa,“ segir Patrekur sem verður eftirmanni sínum, Hrannari Guðmundssyni, og Sigurgeiri Jónssyni þjálfara meistaraflokks kvenna innan handar auk þess að vinna áfram að margvíslegum störfum hjá handknattleiksdeild Stjörnunnar.
Viðtalið við Patrek í nýjasta þætti Handkastsins hefst eftir fjórar mínútur.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Patrekur lætur af störfum – Hrannar mætir til leiks