- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ísraelsmenn voru rassskelltir á Ásvöllum

Kristján Örn Kristjánsson, Donni, nýtti tækifæri sitt afar vel í kvöld og var markahæstur með sjö mörk. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla hóf undankeppni Evrópumótsins 2024 með stórsigri, 36:21, á Ísraelsmönnum á Ásvöllum í kvöld. Staðan var 16:10, að loknum fyrri hálfleik. Þar með er fyrsti vinningurinn í höfn í undankeppninni. Næsti leikur verður við Eistlendinga ytra á laugardaginn.


Óhætt er að segja að leikmenn íslenska landsliðsins hafi rassskellt leikmenn ísraelska landsliðsins. Þeir yfirspiluðu gestina hvað eftir annað með frábærum leik, ekki síst vel út færðum sóknarleik og hraðaupphlaup í framhaldi af góðum varnarleik sem batnaði eftir því sem á leikinn leið.

Björgvin Páll Gústavsson varði afar vel í kvöld, ekki síst í fyrri hálfleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Strax í upphafi voru leikmenn ísraelska liðsins slegnir út af laginu. Þeir ætluðu svo sannarlega sanna sig fyrir nýjum þjálfara liðsins Dragan Djukic. Íslensku piltarnir sáu til þess að sú sýnikennsla varð að engu. Snöggir og liprir leikmenn ísraelska liðsins komust lítt áleiðis og þegar tókst sá Björgvin Páll Gústavsson markvörður til þess að mörkunum var haldið sem fæstum.


Eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 16:10, var forskot íslenska landsliðsins orðið að tíu mörkum fljótlega í síðari hálfleik. Eftir það tók við frekari sýnikennsla þar sem íslensku leikmennirnir léku sér að andstæðingum sínum eins og köttur að mús.

Oft var harkalega eða klaufalega tekið á Elvari Erni Jónssyni. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Gísli Þorgeir Kristjánsson fór hamförum í sóknarleiknum með sex mörkum og sex stoðsendingum. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, var frábær og nýtti tækifæri sitt svo sannarlega í botn með sjö mörkum úr átta skotum. Elvar Örn Jónsson var frábær, ekki síst í fyrri hálfleik þegar hann var hreinlega magnaður á báðum endum leikvallarins.


Björgvin Páll varði frábærlega í fyrri hálfleik en missti aðeins dampinn í þeim síðari. Þá kom Ágúst Elí Björgvinsson eins og stormsveipur og lét sig ekki muna um að skora einnig.

Gísli Þorgeir Kristjánsson lék Ísraelsmenn afar grátt hvað eftir annað. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Fleiri leikmenn íslenska liðsins stóðu sig afar vel í heildina var frammistaðan afar sannfærandi. Leikið var á fullu allt til leiksloka en ekki dregið úr þegar á leið eins og stundum vill vera þegar munurinn verður mikill snemma í leikjum.


Mörk Íslands: Kristján Örn Kristjánsson, Donni; 7, Gísli Þorgeir Kristjánsson 6, Elvar Örn Jónsson 5, Sigvaldi Björn Guðjónsson 4, Bjarki Már Elísson 3, Elli Snær Viðarsson 2, Viggó Kristjánsson 2, Elvar Ásgeirsson 2, Janus Daði Smárason 1, Teitur Ör Einarsson 1, Hákon Daði Styrmisson 1, Ýmir Örn Gíslason 1, Ágúst Elí Björgvinsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústafsson 10/2, 37% – Ágúst Elí Björgvinsson 5/1, 55,6%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -