Hart er sótt að norska handknattleiksliðinu Kolstad um þessar mundir. Ekki aðeins virðist fjárhagurinn vera í skötulíki heldur standa öll spjót að stjórnendum félagsins. Þeir eru sakaðir um að hafa beitt blekkingum til að öðlast keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu og fleira í þeim dúr. Þess er m.a. krafist að Kolstad verði vikið úr Meistaradeild Evrópu í karlaflokki. Forseti Handknattleikssambands Evrópu hefur sett hnefann í borðið og krafist skýringa, bæði hjá Kolstad og norska handknattleikssambandinu.
Kallar eftir brottrekstri
Frank Bohmann framkvæmdastjóri þýsku deildarkeppninnar kallar eftir brottrekstri í Kolstad úr Meistaradeildinni í samtali við Kieler Nachrichten í ljósi upplýsinga sem fram hafa komið síðustu daga um að forráðamenn Kolstad hafi krítað liðugt í umsókn sinni um keppnisrétt í Meistaradeildinni sem send var Handknattleikssambandi Evrópu, EHF.
Ekki sannleika samkvæmt
Með umsókninni staðfestu þeir að félagið ætti fyrir skuldbindingum næsta tímabils auk þess sem á félaginu hvíldu ekki kröfur vegna ógreiddra skulda. Komið hefur í ljós að hvorugt var sannleika samkvæmt.
Viku eftir að yfirlýsingin var send EHF voru leikmenn Kolstad kallaðir á fund og þeim tilkynnt að vegna afleitrar stöðu fjármála væri nauðsynlegt að skera niður laun um 30 af hundraði. Til að bæta gráu ofan á svart skuldar félagið leikmönnum samningsbundnar launauppbætur vegna titlanna sem þeir unnu á síðustu leiktíð.
Forsetinn blandar sér í málið
Í grein Kieler Nachrichten kemur ennfremur fram að Michael Wiederer forseti EHF hafi fyrst fregnað af fjárhagskröggum Kolstad í fréttum fjölmiðla í síðustu viku. Hann hefur þegar krafist skýringa frá Kolstad. Einnig hefur forsetinn sett sig í samband við norska handknattleikssambandið og stjórnendur deildarkeppninnar í Noregi og óskað eftir upplýsingum.
Fegraði bókhaldið
Fyrir nokkrum dögum kom fram að framkvæmdastjóri Kolstad, Jostein Sivertsen, fékk lán hjá fyrirtæki foreldra sinna til að fegra bókhald Kolstad um síðustu áramót svo að það stæðist lágmarkskröfur norska handknattleikssambandsins um eigið fé. Að öðrum kosti hefði keppnisleyfið hugsanlega verið afturkallað eða a.m.k. stig dregin af liðinu.
Ómyrkur í máli
Nils Kristian Myhre framkvæmdastjóri handknattleiksliðsins Elverum er ómyrkur í máli í samtali við Kieler Nachrichten. Hann segir að fyrir liggi að Kolstad hafi orðið meistari í vor í krafti fjármuna sem ekki voru fyrir hendi. Elverum hafnaði í öðru sæti á eftir Kolstad bæði í norsku úrvalsdeildinni í vor og í úrslitakeppninni.
Tengdar greinar:
Reyndi að láta þetta ekki skemma sumarfríið
Sigvaldi Björn tekur á sig 30% lækkun launa
Janus Daði er kominn í raðir Evrópumeistaranna
Sló lán hjá foreldrum sínum til að halda meistaraliðinu á floti
Kolstad viðurkennir erfiðleika – 30% launalækknun
Norsku meistararnir sagðir í fjárhagskröggum