- Auglýsing -
- Auglýsing -

Elvar Örn og Arnar Freyr með í baráttunni!

Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson leikmenn MT Melsungen. Mynd/MT Melsungen
- Auglýsing -

 Þegar hernaður er hafinn í 1. deildarkeppninni í handknattleik (Bundesligunni) í Þýskalandi af miklum krafti, er ljóst að landsliðsmennirnir Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson ætla ekkert að gefa eftir. Þeir hafa fagnað sigri í fyrstu tveimur leikjum Melsungen, á heimavelli. Fyrst 29:19 gegn Göppingen og í gærkvöldi, laugardag, er þeir glímdu við Leipzig (28:27), lið Rúnars Sigtryggssonar. Elvar Örn, sem skoraði 8 mörk í fyrri leiknum, lét sig nægja eitt mark gegn Leipzig. Það gerði einnig Arnar Freyr. Viggó Kristjánsson skoraði aftur á móti sjö mörk fyrir Leipzig, en Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað.

Eftir tvær umferðir er Melsungen, Kiel, Füchse Berlín og Hannover-Burgdorf með fjögur stig; á toppnum! 

Elvar Örn Jónsson fagnar marki. Mynd/Melsungen.

 Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, sem gerði Kiel og Magdeburg að meisturum, spáir því að liðin komi til með að berjast um meistaratitilinn eins og á síðasta keppnistímabili er THW Kiel fagnaði sigri. Ég get ekki annað en verið sammála Alla, sem þekkir styrkleika þýskra liða eins og fingurna á sér. Eins og svo oft áður verða þrjú önnur lið með í meistarabaráttunni; Flensburg, Füchse Berlín og Rhein-Neckar Löwen. Þess má til gamans geta að það leika hvorki fleiri né færri en 43 leikmenn frá Norðurlöndum með þessum fimm liðum. Svo er alltaf skemmtilegt ef „spútniklið“ koma fram í sviðsljósið.

 
Þegar „Bundesligan“ var stofnuð í Vestur-Þýskalandi 1977, lék hópur leikmanna frá Júgóslavíu og löndum frá austur-Evrópu í deildinni. Síðan fóru Íslendingar að fjölmenna í deildinni, einnig Danir, Svíar og Svisslendingar. Seinna komu leikmenn frá Spáni og Frakklandi, en þeim hefur fækkað á síðustu árum, þar sem Frakkar og Spánverjir eru afar heimakærir; vilja taka síesta! – hvíldartíma sínum á daginn, til að kæla sig niður!

Norrænir Víkingar herskáir

 Íslenskir handknattleiksmenn urðu strax vinsælir fyrir dugnað sinn og vinnusemi. Þeir þekktu ekki að leggja sig yfir háannatímann.

 Norrænir víkingar voru miklir vígamenn og vinsælir og voru þeir fjölmennir í liðunum í Norður-Þýskalandi; Slésvík-Holtsetaland, Flensburg og Kiel; einnig í austurhluta Þýskalands, Berlín og Magdeburg og síðan unnu norrænu víkingarnir svæði í kringum Mannheim; Rhein-Neckar Löwen,

* Upp við dönsku landamærin leika nú sjö Danir með Flensburg, sem hefur danskan þjálfara, Nicolej Krickau. Með liðinu leika tveir Norðmenn, einn Íslendingur og einn Svíi.

* Með Kiel leika þrír Svíar, tveir Norðmenn, einn Dani og einn Færeyingur, sem fæddist í Kaupmannahöfn.

* Með Magdeburg leika fjórir Svíar, þrír Íslendingar, tveir Danir og einn Norðmaður.

* Með Rhein-Neckar Löwen leika þrír Svíar og þrír Danir, tveir Íslendingar og einn Norðmaður. Í 24 manna hópi liðsins eru 15 Þjóðverjar!

* Með Füchse Berlín leika þrír Danir, þrír Svíar og einn Færeyingur.

 Einn og einn Finni hafa komið við í Þýskalandi, en þeir höfðu ekki getu til að skjóta rótum. Nú eru aftur á móti tveir landsliðsmenn frá Færeyjum; stórefnilegir, byrjaðir að spreyta sig með Kiel og Berlínar refunum.

Elias Ellefsen á Skipagøtu er öflugur með THW Kiel. Mynd/EHF

 Færeyingurinn snjalli Elías Ellefsen á Skipagøtu, 21 árs, leikur með Kiel og skoraði 7 mörk í fyrsta leik sínum í þýsku 1. deildarkeppninni, gegn Balingen.  Mamma hans er Gunn Ellefsen, formaður Handknattleikssambands Færeyja. Hinn Færeyingurinn er Hákun West af Teigum, 21 árs, leikmaður með Füchse Berlín.

 Fá litlum bæjum

 Hér á meðfylgjandi korti af Þýskalands, má sjá hvar liðin eru með herbúðir sínar í Þýskalandi. 5 lið koma frá Norður-Þýskalandi, þrjú frá austur hluta landsins, 5 frá miðhlutanum og 5 frá Suður-Þýskalandi.

Hér á kortinu má sjá hvar bækistöðvar handknattleiksliðanna eru í Þýskalandi.

 Frá byrjun hefur „Bundesligan“ byggst upp á liðum frá litlum bæjum og borgum, þannig að handknattleikur hefur ekki keppt við knattspyrnuna, en bestu lið Þýskalands í knattspyrnu koma frá stóru borgunum. 

 Íslendingar eru vinsælir – því kynntist ég í fjölmörgum ferðum mínum um Þýskaland, er ég brunaði um sveitir landsins og kynnti mér aðstæður og ræddi við leikmenn, sem sögðu skemmtilega frá lífinu og tilverunni.

 Ég fann strax að Íslendingar voru velkomnir í Þýskalandi. Fólk í smábæjum vissi strax hvað ég var að gera í bænum þeirra, þegar ég sagðist vera blaðamaður frá Íslandi. Í einum bænum, við Rín, þar sem ég kom mér upp bækistöð á litlu hóteli; fór þaðan á leiki í nágrannasveitum, var eldhúsið alltaf opið þangað til að ég kom frá leikjum og viðtölum. Kokkurinn kom mér alltaf á óvart með veislumat; hann reiddi fram miklar kræsingar og sagði mér frá matnum (villibráð); hvaðan hann kæmi.

 Þetta er aðeins smá hliðarsprettur, snúum okkur aftur að handknattleiknum, eftir góðar kræsingar.

  Handknattleikur í opinni dagskrá

  Þegar samkeppnin fór að harðna á milli íþróttagreina í Þýskalandi upp úr 1980; er áskriftarstöðvar fóru að ráða ríkjum og fá til sín íþróttagreinar, sem sýndar voru í lokaðri dagskrá; fólk varð að borga fyrir að sjá íþróttaviðburði, tóku forráðamenn í handknattleik hárrétta ákvörðun. Þeir vildu ekki vera háðir áskriftastöðvum og var ákveðið að gera samninga við ríkissjónvarpstöðvar um að handknattleikur yrði sýndur frítt í opinni dagskrá.

Glæsilegar myndatökur í sjónvarpi hefur gert handknattleik að einni skemmtilegustu og vinsælustu sjónvarpsíþrótt Þýskalands.

 Allir gátu horft á handknattleik; án greiðslu. Samhliða þessu ákváðu forráðamenn að gera stórátak í að markaðssetja handknattleik. Allir bestu handknattleiksmenn Þýskalands tóku þátt í átakinu. Leikmenn heimsóttu barna- og unglingaskóla, sögðu frá og sýndu handknattleik.

 Mikið átak var gert í að taka upp leiki og sýna leikinn frá mörgum sjónarhornum. Áhorfendur sáu galdra handknattleiksins í miklu návígi; boðið var upp á hraða, átök og spennu. Handknattleikurinn varð geysilega vinsæl sjónvarpsíþrótt. Ekki skemmdi það fyrir að fengnir voru færir og skemmtilegir menn til að lýsa leikjum og segja frá. Menn sem höfðu mikla innsýn í galdra handknattleiksins.

Mynd frá torgi í gamla miðbænum í Melsungen.

 Stemning í litlum höllum

 Leikið var í litlum íþróttahöllum, sem bauð upp á mikla stemningu. Það var yfirleitt uppselt á leiki. Þegar stórir leikir fóru fram, sem skiptu miklu máli, var farið með þá leiki í stórar íþróttahallir í nálægum borgum.

 Handknattleikur er geysilega vinsæll í Þýskalandi, þar sem mekka handboltans er. Besta dæmið um það er að aldrei er meiri áhugi á HM og EM, en þegar keppnirnar fara fram í Þýskalandi. Besta dæmið um vinsældirnar er einnig að fjögurra liða úrslitarimmurnar í Evrópukeppni meistaraliða; félagsliða, hafa farið fram í Lanxess-höllin í Köln, sem tekur 19.500 áhorfendur, og er þéttsetin. Það er stutt síðan að Gísli Þorgeir Kristjánsson lék þar aðalhlutverkið, þegar Magdeburg varð Evrópumeistari.

 Þungur róður

 Það getur verið þungur róður að halda liðum gangandi í „Bundesligunni“ enda er það kostnaðarsamt að vera með yfir 30 manna hóp á launaskrá. Í gegnum tíðina hafa lið frá smærri stöðum sameinast. Gott dæmi um það er að Wuppertal og Solingen sameinuðust og úr því varð Bergischer.

 Kronau-Östringen, sem Guðmundur Hrafnkelsson og Gunnar Berg Viktorsson léku með, varð að Rhein-Neckar Löwen, Hannover og Burgsdorf fóru saman undir eina sæng.

 Þegar Bittenfeld, sem Íslendingarnir Arnór Þór Gunnarsson (2010–2012), Björgvin Páll Gústavsson (2007–2009) og Árni Þór Sigtryggsson (2007–2009) léku með, komst í 1. deild 2015, sameinaðist liðið sem er fyrir norð-austan Stuttgart, Waiblingen og úr varð TVB 1898 Stuttgart, sem er með bækistöðvar í Porsche Arena í Stuttgart. Þess má geta að í höllinni leikur einnig lið HBW Balingen-Weilstetten, sem er með bækistöðvar sínar fyrir sunnan Stuttgart.

 Þegar handknattleikur í Hamborg var endurreistur sameinaðist lið frá Hamborg,  VfL Bad Schwartau og HSV Lübeck 1999, en 2002 voru liðin tvö flutt til Hamborgar og nokkrum árum síðar var Hamburg formlega endurreist með nýju skjaldarmerki og félagslitum.

Lið frá stórborgunum München (Milbertshofen) og Frankfurt (Wallau Massenheim) eru ekki lengur í hópi bestu handknattleiksliða Þýskalands og heldur ekki lið frá Dortmund og Düsseldorf.

Sveinn Jóhannsson, leikmaður með Dankersen Minden. Ljósmynd/Minden.

 Gamalkunn félög leika nú í 2. deild. Þar má sjá lið eins og Dankersen Minden, sem hefur þrjá Íslendinga í herbúðum sínum; Aðalstein Eyjólfsson, þjálfara, og leikmennina Svein Jóhannsson og Bjarna Ófeig Valdimarsson, sem kom til liðsins frá sænska liðinu Skövde fyrir þetta tímabil. Með þessu gamalkunna liði hafa 12 aðrir Íslendingar leikið; Axel Axelsson og Ólafur H. Jónsson, sem urðu meistarar með liðinu 1977, Jón Pétur Jónsson, Gústaf Bjarnason, Gylfi Gylfason, Ingimundur Ingimundarson, Páll Ólafsson, Patrekur Jóhannesson, Sigurður Bjarnason, Einar Örn Jónsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Vignir Svavarsson.

Fleiri gamalkunn lið eru í 2. deildinni, eins og Nettelstedt-Lübbecke, Hüttenberg, Essen, Dormagen, Grosswallstadt og Nordhorn. 

 Bækistöðvar sterkustu liðanna

 Við skulum renna yfir liðin sem leika í 1. deildarkeppninni (Bundesligunni). Sjá hver íbúafjöldinn er á svæðinu og hvar keppnishallirnar eru, en þær eru yfirleitt ekki stórar. Hallirnar í litlu bæjunum eru ekki stórar. Þær eru byggðar upp til að skapa stemningu og bjóða upp á andrúmsloft fyrir fjölskyldur, en þegar liðin leika á laugardagskvöldum er umgjörðin í kringum leikina glæsileg, boðið er upp á léttar veitingar og stuðningsmenn ræða málin. Yfirleitt er uppselt á leikina; fólk á sína ársmiða. Á mörgum stöðum er leikaðstaða sett upp fyrir börn, þannig að þau fá að njóta sín á keppnisgólfinu.

  Norður-Þýskaland

* SG Flensburg-Handewitt

Stofnað: 1990.

Íbúafjöldi: 91.113.

Keppnishöll: Flens-Arena 8.000.

Íslendingur: Teitur Örn Einarsson.

* THW Kiel

Stofnað: 1904.

Íbúafjöldi: 246.234.

Keppnishöll: Sparkassen-Arena 10.283.

* SV Hamburg

Stofnað: 1999.

Íbúafjöldi: 1,9 milljónir.

Keppnishallir: Sporthalle 5.126, Barclay Arena 13.000.

* Hannover-Burgdorf

Stofnað: 2005.

Íbúafjöldi: 540.000 í Hannover, 31.083 í Burgdorf. 

Keppnishallir: Hannover ZAG Arena 10.767, Swiss Life Hall 4.460.

Íslendingur: Heiðmar Felixson, aðstoðarþjálfari.

* TBV Lemgo Lippe 

Stofnað: 1924.

Íbúafjöldi: 40.345.

Keppnishöll: Lipperlandhalle 4.790.

  Austur-Þýskaland

* Füchse Berlín

Stofnað: 1920.

Íbúafjöldi: 3,8 milljónir.

Keppnishöll: Max-Schmeling-Halle 9.000. 

* SC Magdeburg

Stofnað: 1955.

Íbúafjöldi: 250.000.

Keppnishöll: GETEC Arena 6.600.

Íslendingar: Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason.

* SC DHfK Leipzig

Stofnað: 1954.

Íbúafjöldi: 600.000.

Keppnishöll: Arena Leipzig 6.327.

Íslendingar: Rúnar Sigtryggsson, þjálfari, Viggó Kristjánsson, Andri Már Rúnarsson.

  Mið-Þýskaland

* Bergischer

Stofnað: 2006.

Íbúafjöldi: 354.000 í Wuppertal, 161.366 í Solingen.

Keppnishallir: Uni-Halle í Wuppertal 3.200, Klingenhalle í Solingen 2.800, ISS Dome í Düsseldorf 12.500, Mitsubishi Electric Halle í Düsseldorf 4.500.

Íslendingur: Arnór Þór Gunnarsson, aðstoðarþjálfari.

* Gummersbach

Stofnað: 1861.

Íbúafjöldi: 51.126.

Keppnishöll: Schwalbe-ARena  4.132.

Íslendingar: Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari, Elliði Snær Viðarsson. Hákon Daði Styrmisson fór á föstudaginn 1. september til Vfl Eintracht Hagen í 2. deild.

* Wetzlar

Stofnað: 1994.

Íbúafjöldi: 54.187.

Keppnishöll: Buderus Arena 4.421.

* Melsungen

Stofnað: 1861.

Íbúafjöldi: 13.906.

Keppnishöll: Rothenbach-Halle 4.500.

Íslendingar: Arnar Freyr Arnarsson, Elvar Örn Jónsson.

* Eisenach

Stofnað: 1949.

Íbúafjöldi: 42.000.

Keppnishöll: Werner-Assmann-Halle 3.100.

   Suður-Þýskaland

* Rhein-Neckar Löwen

Stofnað: 2002.

Íbúafjöldi: 311.831 í Mannheim.

Keppnishöll: SAP Arena 13.200.

Íslendingar: Ýmir Örn Gíslason, Arnór Snær Óskarsson.

* Erlangen

Stofnað: 2001.

Íbúafjöldi: 115.000.

Keppnishöll: Arena Nürnberger Versicherung 8.308.

* TVB 1898 Stuttgart

Stofnað: 2006.

Íbúafjöldi: 630.00 á stór Stuttgart-svæðinu.

Keppnishöll: Porsche-Arena í Stuttgart 6.181.

* Balingen-Weilstetten

Stofnað: 2002.

Íbúafjöldi: 34.604.

Keppnishöll: Porsche-Arena í Stuttgart 6.181.

Íslendingar: Oddur Gretarsson, Daníel Þór Ingason.

* Frisch Auf Göppingen

Stofnað: 1920.

Íbúafjöldi: 55.571.

Keppnishöll: EWS Arena 5.600.

Auf Wiedersehn!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Sigmundur hefur skrifað margar greinar fyrir handbolta.is á síðustu þremur árum. Allar snúa þær að sögu handknattleiksins og geyma ómetanlega fróðleik. Hlekk á nokkrar þeirra er að finna hér fyrir neðan.

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni – Stigið…Sigtryggur vann!

Snorri Steinn 19 árum eldri en Hilmar var sem landsliðsþjálfari!​​​​​

Verða Svíar lagðir að velli eins og í Bratislava 1964?

Leika með sorgarbönd vegna andláts Karls G. Benediktssonar

Hannes Þ. kom heim með HM-boð frá Austur-Þjóðverjum

Svíar og Danir tóku Íslendinga í kennslustund

„Litli og stóri“ vöktu athygli í Árósum 1962!

ÓL Í 50 ÁR: ​​​​​„Létum Tékka hafa okkur út í tóma vitleysu!“

ÓL Í 50 ÁR: Hjalti gaf sjóvettlinga og Geir með handleggi á „kúluliðum“!​​​​​

ÓL Í 50 ÁR:​​​​​ Benedikt flutti gleðifréttir frá Madrid

Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi

„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“

Geir himnasending fyrir Göppingen

Axel og Kristbjörg – meistarahjón!

Martröðin í Karl-Marx Stadt 1974 – endurtekur sig!

„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!

„Háspenna, lífshætta“ á Selfossi!

Daníel Þór fetar í fótspor afa síns – eftir 56 ár!

Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!

Kókkassakast styrkti skothörku þeirra!

Íslendingar komu, sáu og sigruðu

Blaðamaður „stal“ aðalhlutverkinu!

Ólafur var sá besti

Ómar Ingi og Gísli Þorgeir í fótspor Ólafs og Alfreðs?

Gísli Þorgeir fær tækifæri til að fagna!

Alfreð vildi ekki trana sér fram!

Þakkar pabba sínum og Alfreð!

Pabbi forseta Íslands lagði línuna fyrir Kiel!

Siggi Sveins skaut eins og John Wayne!

Alexander Petersson í sögubækurnar!

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -