- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fjölnir í Olísdeildina – eins marks sigur í oddaleiknum

Fjölnir tekur sæti í Olísdeild karla á næstu leiktíð. Mynd/Þorgils G.
- Auglýsing -

Fjölnir leikur í Olísdeild karla á næstu leiktíð. Það var ljóst eftir að liðið vann Þór, 24:23, í æsilega spennandi úrslitaleik liðanna í Fjölnishöllinni í kvöld. Þórsarar sitja eftir í Grill 66-deildinni eftir að hafa lagt sig alla fram í umspilinu, fyrst gegn Herði í undanúrslitum og loks í fimm leikja rimmu við Fjölni. Tæpara gat það ekki orðið.

Fjölnir var síðast í Olísdeildinni veturinn 2019/2020.

Þriðja árið í röð var Fjölnir í úrslitum umspilsins og loksins náði liðið takmarki sínu. Fjölnir tapaði fyrir Víkingi í oddaleik á síðasta ári. Víkingar skoruðu sigurmarkið á síðustu sekúndu eftir mistök í síðustu sókn Fjölnis. Fyrir tveimur árum tapaði Fjölnir fyrir ÍR í umspili og níu ár eru frá tapi fyrir Selfossi í oddaleik í umspili.

Umspil Olís karla: leikjadagskrá og úrslit

Engan skal þess vegna undra að kátt var á hjalla í Fjölnishöllinni í kvöld þegar naumur sigur, 24:23 var í höfn. Fjöldi fólks frá báðum félögum mættu á áhorfendapallana og settu frábæran svip á leikinn.

Leikurinn bauð upp á flest sem skemmtilegan handboltaleik getur prýtt, spennu, dramatík, sveiflur og tilfinningar auk frábærra áhorfenda.

Þórsarar voru sterkari allan fyrri hálfleikinn og réðu lögum og lofum. Þeir voru þar af leiðandi með verðskuldaða forystu í hálfleik, 14:11, en Fjölni tókst aðeins einu sinni að jafna metin, 5:5.

Svo virtist í upphafi síðari hálfleiks að leikmenn Þórs ætluðu að láta kné fylgja kviði. Þeir skoruðu tvö fyrstu mörkin og náðu fimm marka forystu, 16:11. Leikmönnum Fjölnis tókst að snúa vörn í sókn, ná áhlaupi og svara fyrir sig. Þeir komust yfir, 17:16, og síðar 22:18 þegar níu mínútur voru til leiksloka. Sóknarleikur Þórs var slakur. Það nýttu Fjölnismenn sér.

Þórsarar höfðu reyndar ekki sagt sitt síðasta orð þótt illa gengi. Þeir jöfnuðu metin, 22:22, þremur mínútum og 10 sekúndum fyrir leikslok. Nær komust þeir ekki og það fór e.t.v. vel á því að Björgvin Páll Rúnarsson, sem hefur gengið í gegnum súrt og sætt með Fjölni á 12 árum í meistaraflokki, innsiglaði sigurinn og sæti í Olísdeildinni, 24:22, þegar 20 sekúndur voru til leiksloka.

Mörk Fjölnis: Björgvin Páll Rúnarsson 7, Elvar Þór Ólafsson 7, Viktor Berg Grétarsson 4, Dagur Logi Sigurðsson 3, Alex Máni Oddnýjarson 2, Óðinn Freyr Heiðmarsson 1.
Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 9 – Bergur Bjartmarsson 1.
Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 8, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Þormar Sigurðsson 5, Jón Ólafur Þorsteinsson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1, Friðrik Svavarsson 1, Arnþór Gylfi Finnsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 15/2.

Handbolti.is var í Fjölnishöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -