Kórónuveira heldur áfram að setja stórt strik í reikninginn í dönskum handknattleik. Útlit er fyrir að aðeins einn leikur af sjö fari fram í úrvalsdeildinni í karlaflokki í kvöld. Sama var upp á teningnum á miðvikudaginn þegar slá varð sex leikjum á frest um óákveðinn tíma.
Ágúst Elí Björgvinsson, landsliðsmarkvörður, og samherjar í KIF Kolding verða í eldlínuni í eina leik kvöldsins. Gangi allt að óskum taka þeir á móti Fredericia á heimavelli.
Rúm vika er síðan smit komu upp í herbúðum GOG sem Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með og í byrjun síðustu viku skaut veiran sér niður í leikmannahóp meistaranna Aalborg Håndbold þar sem Aron Pálmarsson er auk Arnórs Atlasonar aðstoðarþjálfara.
Síðasta umferð dönsku úrvalsdeildar karla á árinu á að fara fram á fimmtudaginn. Margt bendir til þess að þá verði einnig að fresta leikjum þann daginn.
Vegna mjög þéttrar dagskrár í deildarkeppninni á nýju ári auk þátttöku liða í Evrópumótum félagsliða eru margrar frestanir þyrnir í augum forráðamanna félaganna. Hinsvegar er ekkert við núverandi ástandi að gera. Mörg smit hafa greinst innan sumra liðanna sem gert hafa að verkum að verulegur hluti leikmannahópa margra liða er í einangrun.
Keppni í úrvalsdeild kvenna í Danmörku hefur legið niðri frá 17. nóvember vegna undirbúnings og síðar þátttöku danska landsliðsins á heimsmeistaramótinu sem fram fór á Spáni. Til stendur að taka upp þráðinn á öðrum degi í nýári. Danir krossa fingur og vona að keppni í deildinni geti hafist án raskana á tilsettum tíma en af fenginni reynslu síðustu daga er ljóst að engu er hægt að slá föstu í þeim efnum.