- Auglýsing -
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur hjá Skövde við þriðja mann þegar liðið gerði jafntefli við SKA Minsk frá Hvíta-Rússlandi, 26:26, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. Leikið var í Skövde í Svíþjóð.
- Kadetten Schaffhausen, liðið sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, vann Bern, 26:16, í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær og er í efsta sæti deildarinnar sem fyrr. Kadetten hefur 34 stig eftir 18 leiki og er sex stigum og einum leik á undan Pfadi Winterthur sem er í öðru sæti.
- Janus Daði Smárason var ekki í leikmannahópi Göppingen í gær þegar liðið vann Wetzlar, 33:26, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Göppingen er í sjötta sæti deildarinnar.
- Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk í þremur tilraunum þegar lið hans Bergischer HC tapaði fyrir Kiel, 26:24, á heimavelli í þýsku 1. deildinni. Bergischer er 12. sæti en Kiel í öðru sæti.
- Lilja Ágústsdóttir skoraði ekki fyrir Lugi í gær þegar liðið vann Höörs HK H 65, 30:27, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna á heimavelli. Þetta var annar leikur Lilju fyrir Lugi eftir að hún gekk óvænt til liðs við það fyrir 10 dögum. Lugi er í sjötta sæti deildarinnar með 17 stig eftir 14 leiki og er 11 stigum á eftir Skuru sem trónir á toppnum.
- Ólafur Andrés Guðmundsson var ekki í leikmannahópi Montpellier í gær þegar liðið vann Dunkerque, 31:26, í frönsku 1. deildinni í handknattleik á útivelli. Þetta er þriðji leikurinn í röð eftir EM sem Ólafur Andrés tekur ekki þátt í með franska stórliðinu. Montpellier er komið upp í fjórða sæti deildarinnar með 19 stig eftir 16 leiki og er sex stigum á eftir PAUC og Nantes sem eru jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti.
- Fredrikstad bkl, liðið sem Elías Már Halldórsson þjálfar, tapaði í gær á heimavelli fyrir Larvik, 22:19, í norsku úrvalsdeild kvenna í handknattleik. Fredrikstad bkl situr nú í 10. sæti af 14 liðum deildarinnar með 12 stig eftir 17 leiki, 21 stigi á eftir Evrópumeisturum Vipers Kristiansand sem eru í efsta sæti.
- Annan leikinn í röð var Birta Rún Grétarsdóttir ekki með Oppsal í norsku úrvalsdeildinni í gær þegar liðið mætti Aker Topphåndball og tapaði með sex marka mun, 30:24, í Oppsal Arena. Oppsal situr í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar með 8 stig eftir 19 leiki.
- Auglýsing -