Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í pólska meistaraliðinu Wisla Plock unnu Nantes, 28:25, í fyrri viðureign liðanna í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu í Plock í kvöld. Þeir voru með fimm marka forskot í hálfleik, 17:12. Nokkuð dró saman með liðunum í síðari hálfleik. Síðari viðureignin verður í Frakklandi í næstu viku. Samanlagður sigurvegari tekur sæti í átta liða úrslitum.
Viktor Gísli varði fimm skot, 20%, gegn sínum gömlu samherjum. Gamla króatíska brýnið, Mirko Alilovic leysti Viktor af í skamman tíma en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn.
Przemyslaw Krajewski skoraði átta mörk fyrir Wisla Plock og var markahæstur. Tomas Piroch var næstur með fimm mörk.
Julien Bos skoraði sex mörk fyrir Nantes.
Eins marks tap hjá Janusi
Janus Daði Smárason og liðsfélagar í ungverska liðinu Pick Szeged töpuðu á heimavelli fyrir franska meistaraliðinu Paris Saint-Germain, 31:30, í Pick-Arena í Szeged í jöfnum leik. Liðin eigast við á ný í París í næstu viku.
Janus Daði skoraði þrjú mörk og er skráður fyrir einni stoðsendingu.
Lazar Kukic skoraði sex mörk fyrir Pick Szeged og Kamil Syprzak skoraði átta mörk fyrir PSG.