- Auglýsing -
- Auglýsing -

Amma og mamma verða ánægðar að fá mig heim

Teitur Örn Einarsson handknattleiksmaður. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Loksins hefur maður tækifæri til þess að koma heim og vera með fjölskyldunni um jól og áramót. Amma og mamma verða að minnsta kosti ánægðar með að ég verði heima með þeim á aðfangadag,“ sagði Teitur Örn Einarsson handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is.


Í gær var sagt frá því að Teitur Örn hafi skrifað undir tveggja ára samning við Gummersbach frá og með næsta sumri og í kvöld leikur hann með Flensburg í síðasta sinn á árinu þegar Balingen-Weilstetten verður sótt heim.

Kærkomin breyting

Bryddað er upp á þeirri nýjung að þessu sinni að ekki verður leikið í þýsku 1. deildinni á milli jóla og nýárs. Stundum hafa liðin jafnvel leikið tvisvar á dögunum á milli hátíðanna. Teitur Örn segir þetta verða kærkomna breytingu frá síðustu árum.

„Þar með get ég verið heima á Selfossi yfir jólin,“ segir Teitur Örn sem verður að hafa hröð handtök því eftir leikinn í kvöld, sem fram fer í suðurhluta Þýskalands, er drjúgur spölur til Flensborgar og þaðan heim til Íslands.

Allstaðar í baráttu

Í febrúar tekur við síðari hluti keppninnar í Þýskalandi en Flensburg er í baráttu á þrennum vígstöðvum, í deildinni heimafyrir, í bikarkeppninni og í Evrópudeildinni þar sem 16-liða úrslit í riðlakeppni tekur við fljótlega aftur eftir EM. Vegna veikinda Hollendingsins Kay Smits hefur Teitur Örn fengið stærra hlutverk upp á síðkastið og nýtt tækifærið vel, jafnt í vörn sem sókn.

Vil ljúka tímabilinu vel

„Ég vil ljúka tímabilinu með Flensburg á eins góðan hátt og unnt er. Sem stendur ríkir óvissa um hvenær Kay Smits snýr til baka út á leikvöllinn vegna veikinda sem hrjá hann. Að öðru leyti lítur allt vel út hjá okkur um þessar mundir. Við erum allstaðar í titilbaráttu og ætlum okkur að vera það áfram,“ sagði Teitur Örn Einarsson handknattleiksmaður hjá Flensburg í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -