- Auglýsing -
- Auglýsing -

Donni leikur ekki gegn Valsmönnum

Kristján Örn Kristjánsson, Donni, leikmaður PAUC í Frakklandi. Mynd/PAUC
- Auglýsing -

Íslenski landsliðsmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson, Donni, verður ekki í leikmannahópi franska liðsins PAUC í kvöld þegar liðið mætir Íslands- og bikarmeisturum Vals í fjórðu umferð B-riðils Evrópudeildarinnar í handknattleik í kvöld. Leikurinn fer fram í Arena Du Pays D´Aix í suður-Frakklandi og hefst klukkan 19.45.


Donni staðfesti við handbolta.is í morgun að hann taki ekki þátt í leiknum í kvöld. Donni hefur verið meiddur í ökkla síðustu tvær viku. „Ég vonast til þess að mæta og verða með í deildarleik á laugardaginn,“ sagði Donni sem hafði leikið afar vel með PAUC og íslenska landsliðinu í haust og það sem af er vetrar áður en hann meiddist.


Donni hefur leikið með PAUC frá sumrinu 2020.


PAUC hafnaði í þriðja sæti frönsku 1. deildarinnar í handknattleik á síðasta keppnistímabili, var næst á eftir PSG og Nantes.

Margt líkt

Valur og PAUC eru í öðru og þriðja sæti B-riðils með fjögur stig hvort eftir þrjá leiki. Hvort þeirra hefur unnið tvo leiki en tapað einum og eiga það einnig sameiginlegt að hafa beðið lægri hlut fyrir þýska liðinu Flensburg.


PAUC tapaði með fimm marka mun, 30:25, í Flensburg þriðjudaginn 1. nóvember en Valur, 37:32, í Origohöllinni fyrir viku.


Liðin tvö hafa einnig unnið ungverska liðið FTC. Valur lagði FTC 43:39, í Origohöllinni 25. október. PAUC lagði FTC 33:30, í Arena Du Pays D´Aix á síðasta þriðjudag.

Skartar landsliðsmönnum

Nokkrir franski landsliðsmenn leika með PAUC. Meðal þeirra eru Wesley Pardin, markvörður, Matthieu Ong, Romain Lagarde og William Accambray. Pardin markvörður hefur verið að sækja í sig veðrið síðustu mánuði eftir að hafa slitið krossband í leik með franska landsliðinu á HM 2021.

Einn þekktasti þjálfari Frakklands

Thierry Anti þjálfari PAUC er einn þekktasti handknattleiksþjálfari Frakklands á síðari árum. Hann er 63 ára gamall og tók við þjálfun PAUC sumarið 2020 eftir eins árs veru hjá Sporting Lissabon. Anti tók við þjálfun liðsins af Jérôme Fernandez sem hafði verið við stjórnvölin um fjögurra ára skeið.


Anti var þjálfari Nantes í áratug, 2009 til 2019, og tók þátt í leggja grunn að því mikla veldi sem félagið er í dag. Lék Nantes, undir stjórn Anti, til úrslita í Meistaradeild Evrópu vorið 2018 en tapaði naumlega fyrir Montpellier í úrslitaleik.


Handbolti.is ætlar að fylgjast með viðureign PAUC og Vals í textalýsingu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -