Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik segir ákvörðun Arons Pálmarssonar fyrirliða landsliðsins til síðustu ára að hætta í handbolta í lok keppnistímabilsins ekki hafa komið sér í opna skjöldu.
„Við sem þekkjum hans sögu varðandi meiðsli á síðustu árum vitum hvað hann hefur reynt margt til þess að losna undan þeim. Hann telur orðið fullreynt í þeim efnum. Við vitum það um Aron að ef hann er ekki hundraðprósent þá er hann ekki ánægður,“ sagði Snorri Steinn þegar handbolti.is heyrði í honum í morgun vegna ákvörðunar Arons sem hann tilkynnti síðdegis í gær.
Aron Pálmarsson hættir í handbolta
Sjónarsviptir
„Auðvitað verður sjónarsviptir af leikmanna eins og Aroni sem hver einasti þjálfari vill hafa í sínu liði. Á sama tíma ber ég virðingu fyrir ákvörðun hans,“ sagði Snorri Steinn ennfremur
en þeir töluðu saman áður en tilkynningin var gefin út.
Lýsir kjarki
„Ég fann það á Aroni að hann er sáttur. Þegar menn finna sjálfir að tími sé kominn til að láta staðarnumið þá lýsir það miklum kjarki að standa með því. Ákvörðun eins og þessa er ekki létt að taka hvenær sem hún er tekin,“ bætir Snorri Steinn við.

Mikilvægur utan vallar og innan
Aron á að baki 17 ára feril með landsliðinu, lengst af sem burðarás. Brotthvarf hans mun breyta ásýnd landsliðsins að einhverju leyti.
„Aron hefur verið frábær á þeim tveimur mótum sem ég hef farið á sem landsliðsþjálfari. Hann hefur komist í gegnum þau og skilað frábæru starfi og var okkur mikilvægur jafnt innan vallar sem utan. Hann hefur verið fyrirliði og leiðtogi landsliðsins um árabil,“ segir Snorri Steinn og undirstrikar að mikilvægi Arons innan vallar hefur ekki verið bundið við sóknarleikinn. „Það hefur oft gleymst hversu öflugur varnarmaður Aron er.“

Snorri Steinn segir að nú sé komið að öðrum að taka við. „Þegar ljóst er að Aron leikur ekki fleiri leiki með okkur þá opnast risastórt tækifæri fyrir aðra til þess að taka við keflinu.“
- Aron lék alls 184 landsleiki og skoraði í þeim 694 mörk. Fyrsti landsleikurinn var gegn Belgum í Laugardalshöll 29. október 2008 og sá síðasti við Argentínu á heimsmeistaramótinu 26. janúar sl.
- Aron hefur orðið fimm sinnum þýskur meistari, þrisvar sinnum bikarmeistari, fjórum sinnum meistari á Spáni og jafn oft bikarmeistari, tvisvar meistari í Ungverjalandi og tvisvar bikarmeistari (einn meistaratitillinn getur bæst við), einu sinni bikarmeistari í Danmörku.
- Aron varð Íslandsmeistari með FH fyrir ári, 2024.
- Aron var í bronsliði Íslands á EM 2010 í Austurríki.
- Aron hefur þrisvar verið í sigurliði í Meistaradeild Evrópu, 2010 og 2012 með THW Kiel og 2021 með Barcelona.
- Tvisvar var Aron valinn besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu, 2014 og 2016.
-Aron var kjörinn íþróttamaður ársins á Íslandi 2012.