- Auglýsing -
- Auglýsing -

Janus Daði flytur til Szeged næsta sumar – tveggja ára samningur

Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik verður leikmaður Pick Szeged frá og með næsta sumri. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik gengur til liðs við ungverska liðið Pick Szeged í sumar. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning sem tekur gildi upp úr miðju næsta ári. Pick Szeged sagði frá komu Janusar í morgun.

Janus Daði leikur nú með Evrópumeisturum SC Magdeburg. Hann gekk til lið við þýska liðið í sumar eftir að hafa slitið samningi sinum við norska meistaraliðið Kolstad.


„Ég er afar ánægður með að hafa náð samkomulagi við rótgróið lið,“ er haft eftir Janusi Daða á heimasíðu Pick Szeged þar sem hann segist ennfremur vera fullur eftirvæntingar að takast á við verkefnin með liðinu frá og með næsta sumri.

Annar Íslendingurinn hjá Szeged

Janus Daði verður annar íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að leika með Pick Szeged. Stefán Rafn Sigurmannsson er eini íslenski handknattleiksmaðurinn sem leikið hefur með Pick Szeged. Hann gerði það gott með liði félagsins frá 2017 til 2021 og varð m.a. ungverskur meistari í tvígang og bikarmeistari einu sinni.

Síðast meistari 2022

Pick Szeged er annað af tveimur stóru félagsliðunum í Ungverjalandi. Hitt er Telekom Veszprém sem Bjarki Már Elísson leikur með. Pick Szeged vann síðast ungverska meistaratitilinn vorið 2022. Sem stendur er liðið í 2. sæti ungversku deildarinnar auk þess að vera í Meistaradeild Evrópu.

Svíinn Michael Apelgren, sem var um skeið orðaður við starf landsliðsþjálfara karla hér á landi í vor, tekur við þjálfun Pick Szeged í sumar.

Janus Daði verður 29 ára gamall á nýársdag. Hann er í landsliðshópnum fyrir EM í næsta mánuði. 
2011–2012 - Selfoss.
2013 - Aarhus Håndbold.
2014–2017 - Haukar.
2017–2020 - Aalborg Håndbold.
2020–2022 - Frisch Auf Göppingen.
2022–2023 - Kolstad Håndball.
2023–2024 - SC Magdeburg.
2024– SC Pick Szeged.
- Janus Daði hefur leikið 72 landsleiki og skoraði í þeim 114 mörk.

Fer Janus Daði til Ungverjalands í sumar?

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -