- Auglýsing -
- Bjarki Már Elísson var í liði 10. umferðar þýsku 1. deildarinnar í handknattleik sem tilkynnt var á síðasta föstudag en umferðinni lauk á fimmtudagskvöld. Bjarki Már átti stórleik þegar lið hans Lemgo vann Rhein-Neckar Löwen, 33:30, í Mannheim. Hann skoraði 12 mörk í 14 skotum. Þetta er í annað sinn á keppnistímabilinu sem Bjarki Már er valinn í lið umferðarinnar.
- Aron Dagur Pálsson og Daníel Freyr Andrésson og félagar í Guif frá Eskilstuna töpuðu fyrir Lugi, 38:29, í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í gærkvöld. Leikið var í Lundi. Aron Dagur skoraði þrjú mörk í leiknum. Liðin mætast öðru sinni í Eskilstuna á föstudagskvöld.
- Norska meistaraliðið Elverum sem Orri Freyr Þorkelsson leikur með seldi í gær nærri 5.600 aðgöngumiða á viðureign sína við þýska meistaraliðið Kiel í Meistaradeild Evrópu. Til stendur að leikurinn fari fram í febrúar í Hákonshöllinni í Lillehammer. Forsvarsmenn Elverum stefna á að selja nærri 13 þúsund miða á viðureignina.
- Þýski landsliðsmaðurinn Djibril M`Bengue gengur til liðs við Bergischer HC á næsta sumri eftir fjögurra ára veru hjá Porto. M`Bengue er örvhent skytta sem var valinn í fyrsta sinn í þýska landsliðið á dögunum þegar það mætti portúgalska landsliðinu í tveimur vináttulandsleikjum.
- Auglýsing -