- Auglýsing -
- Bjarki Már Elísson skoraði fimm mörk í fjórtán marka sigri Veszprém á Dabas KC, 42:28, í fyrsta leik liðsins í ungversku 1. deildinni í handknattleik á heimavelli í gær. Yfirburðir Bjarka Más og félaga voru miklir í leiknum. Þeir voru m.a. 10 mörkum yfir, 23:13, að loknum fyrri hálfleik.
- Leikmenn Veszprém hafa flestir hverjir jafnað sig af alvarlegri magakveisu sem herjaði á þá í æfingaferð til Þýskalands fyrir hálfum mánuði en æfingar voru felldar niður í nærri viku vegna veikindanna.
- Arnór Atlason þjálfari TTH Holstebro fagnaði sigri á heimavelli í fyrsta leik liðsins í dönsku úrvalsdeildinni í gær. TTH Holstebro lagði Fredericia HK, 29:28. Hvorki Arnór Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson skoruðu í leiknum en þeir leika með Fredericia HK. Einar Þorsteinn gaf eina stoðsendingu. Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia HK.
- Ýmir Örn Gíslason fyrirliði Göppingen skoraði eitt mark þegar liðið gerði jafntefli við HSV Hamburg á heimavelli í fyrsta leik liðanna í þýsku 1. deildinni í gær, 25:25. Göppingen var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13.
- Daníel Þór Ingason og liðsfélagar í Balingen-Weilstetten unnu TuS N-Lübbecke, 32:30, á heimavelli í fyrstu umferð 2. deildar þýska handknattleiksins í gærkvöld. Daníel Þór skoraði ekki mark en átti eina stoðsendingu.
- Grétar Ari Guðjónsson varði þrjú skot þann skamma tíma sem hann var í marki US Ivry í gær þegar liðið tapaði fyrir Istres, 36:25, á útivelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Keppni í deildinni í hófst í gær. Darri Aronsson var ekki með Ivry en hann er meiddur eins og kom fram á handbolti.is í vikunni.
Sjá einnig: Staðan víða í Evrópu.
- Auglýsing -