- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aftureldingarmenn kjöldrógu Stjörnumenn

Aftureldingarmenn gátu fagnað í kvöld. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Afturelding varð fjórða liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld með stórsigur á Stjörnunni í oddaleik að Varmá, 35:23, eftir að hafa verið 10 mörkum yfir í hálfleik, 18:8. Mestur varð munurinn á liðunum 14 mörk í síðari hálfleik.

Aftureldingarmenn mæta bikarmeisturum Vals í undanúrslitum. Sennilegt er að fyrsta viðureignin fari fram að Varmá á síðasta vetrardag, miðvikudaginn 24. apríl. Þátttaka Vals í Evrópubikarkeppninni um helgina og um aðra helgi setur strik í reikninginn í þessari rimmu undanúrslitanna.

Skemmst er frá því að segja að Stjarnan sá aldrei til sólar að Varmá í kvöld. Mosfellingar léku af mikill ákefð frá upphafi. Meðan allt varð Mosfellingum til framdráttar, í vörn jafnt sem sókn, féll leikmönnum Stjörnunnar allur ketill í eld. Þeim lukkaðist lítt að skora framan af og þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiktímanum var staðan 11:4 Aftureldingu í vil.

Gríðarleg stemning var á meðal áhorfenda, ekki síst Mosfellingar, sem léku við hvern sinn fingur. Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði með bylmingsskotum, Brynjar Vignir Sigurjónsson varði allt hvað af tók og Birgir Steinn Jónsson, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, fór á kostum. Allt lagðist á sveif með Mosfellingum.

Mosfellingar byrjuðu síðari hálfleik af sama krafti og þann fyrri. Leikmenn Stjörnunnar áttu sér ekki viðreisnar von með andstæðinginn í miklum ham.

Mörk Aftureldingar: Birgir Steinn Jónsson 8/4, Þorsteinn Leó Gunnarsson 8, Ihor Kopyshynskyi 3, Jakob Aronsson 3, Þorvaldur Tryggvason 3, Andri Þór Helgason 2, Blær Hinriksson 2, Birkir Benediktsson 2, Árni Bragi Eyjólfsson 2, Harri Halldórsson 1, Leó Snær Pétursson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 11/1, 37,9% – Jovan Kukobat 8/3, 57,1%.

Mörk Stjörnunnar: Jón Ásgeir Eyjólfsson 6, Haukur Guðmundsson 3/1, Hergeir Grímsson 3/1, Þórður Tandri Ágústsson 3, Pétur Árni Hauksson 2, Rytis Kazakevicius 2, Egill Magnússon 1, Ísak Logi Einarsson 1, Tandri Már Konráðsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 6/1, 25% – Sigurður Dan Óskarsson 5, 22,7%.

Sjá einnig: Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni

Handbolti.is var að Varmá og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -