Ísland hóf keppni á Evrópumóti 18 ára landsliða karla í Podgorica í Svartfjallalandi í dag með stórsigri á Pólverjum, 38:25, í A-riðli mótsins. Íslenska liðið hafði talsverða yfirburði frá upphafi og var með níu marka forskot eftir fyrri hálfleik, 20:11.
Næsti leikur íslenska liðsins verður við Ungverja klukkan 14 á morgun. Ungverjar unnu Þjóðverja í upphafsleik mótsins í hádeginu, 35:32.
Varnarleikur íslenska liðsins var frábær strax frá upphafi. Þannig var pólska liðið slegið út af laginu strax í upphafi. Sóknarleikurinn var einnig hraður og markviss með fjölda hraðra upphlaupa. Einnig var Ísak Steinsson markvörður vel með á nótunum frá upphafi leiks til enda. Munurinn jókst jafnt og þétt.
Pólverjar reyndu hvað þeir gátu að snúa taflinu við í byrjun síðari hálfleik. Þeim tókst að minnka forskot Íslands niður í sex mörk, 24:18, þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Nær komust leikmenn pólska liðsins ekki og máttu þeir gera sér að góðu að vera teknir í kennslustund.
Mjög góð byrjun hjá íslenska liðinu. Nær allir leikmenn liðsins fengu tækifæri til þess að spreyta sig og stimpla sig inn í mótið. Löng og ströng keppni er framundan næstu 10 daga og væntanlega mun erfiðari leikur strax á morgun.
Mörk Íslands: Elmar Erlingsson 7, Kjartan Þór Júlíusson 6, Andri Fannar Elísson 5, Atli Steinn Arnarsson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Andrés Marel Sigurðarson 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 3, Viðar Ernir Reimarsson 2, Össur Haraldsson 2, Birkir Snær Steinsson 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.
Varin skot: Ísak Steinsson 14/1.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.