- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrsti liður í undirbúningi fyrir stærra verkefni

Hildigunnur Einarsdóttir landsliðskona í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við þekkjum mjög lítið til landsliðs Lúxemborgar. Eftir því sem næst verður komist leika flestir ef ekki allir með félagsliðum í heimalandinu. Deildin þar er ekki mjög sterk. Vegna þessa þá einbeitum við okkur fyrst og síðast að okkur sjálfum með því að vinna í framförum á okkar leik, jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir sem leikur sinn 95. landsleik annað kvöld, miðvikudag, þegar íslenska landsliðið mætir landsliði Lúxemborgar í fyrstu umferð 7. riðils undankeppni Evrópumótsins 2024.


„Ef í ljós kemur á miðvikudaginn að Lúxemborgarliðið er ekki sterkur andstæðingur þá skiptir miklu fyrir okkur að standa góða vörn frá upphafi til enda. Reikna má með að við verðum að standa lengi í vörn sem reynir á þolrifin. Í það fer mikil einbeiting og um leið tækifæri til þess að gera það með stæl. Allir leikir okkar hver sem andstæðingurinn er eru hluti af stærra verkefni,“ sagði Hildigunnur sem er ein af leikreyndari leikmönnum landsliðsins um þessar mundir.

Erfiður leikur í Færeyjum

Eftir viðureignina við Lúxemborg tekur við undirbúningur fyrir síðari viðureignina í fyrsta hluta undankeppninnar sem verður leikur við færeyska landsliðið í Þórshöfn á sunnudaginn.

„Við verðum að taka leikinn gegn Lúxemborg sem skref í undirbúningi okkar að leiknum við færeyska landsliðið sem hefur á að skipa mikið öflugra liði en Lúxemborg. Leikurinn í Færeyjum verður mjög erfiður. Okkar markmið er vitanlega að ná í fjögur stig úr leikjunum tveimur í upphafi undankeppninnar,“ sagði Hildigunnur ennfremur.

Margar ungar og flottar

Talsverðar breytingar hafa orðið á landsliðshópnum. Meðal leikmanna sem voru með í síðasta verkefni en eru fjarri góðu gamni að þessu sinni má nefna Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur, Rut Arnfjörð Jónsdóttur og Steinunni Björnsdóttur.

„Það eru margar ungar og flottar konur að koma inn í hópinn. Þær eru duglegar og hafa mikinn metnað. Sannarlega hefur hópurinn breyst en það er svo sem bara eðlilegur gangur í þessu hjá okkur. Það er bara gaman að sjá hver þróunin er. Ef vel gengur gegn Lúxemborg þá verður hægt að rúlla vel á hópnum, leyfa öllum að taka þátt í landsleik á heimavelli fyrir framan sitt fólk. Það er mjög gaman. Hægt verður að nota leikinn við Lúxemborg til margs ef við mætum rétt stemmdar til leiks,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is.

Viðureign Íslands og Lúxemborgar hefst klukkan 19.30 á Ásvöllum á miðvikudaginn. Frítt verður á leikinn í boði Boozt.com, eins af samstarfsfyrirtækjum HSÍ.

Tengdar fréttir:

Lena Margrét hleypur í skarðið fyrir Birnu Berg

Hópur valinn fyrir fyrstu leikina í undankeppni EM

Koma til Íslands sex árum eftir endurreisn – í fyrsta sinn í undankeppni EM

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -