Sandra Erlingsdóttir og samherjar í TuS Metzingen unnu SV Union Halle-Neustadt með fimm marka mun á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld og færðust upp í sjöunda sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki.
Á sama tíma töpuðu Díana Dögg Magnúsdóttir og félagar hennar í BSV Sachsen Zwickau með minnsta mun, 26:25, í heimsókn til Leverkusen.
Sandra skoraði þrjú mörk og átti fjórar stoðsendingar fyrir Metzingenliðið. Henni var einnig vikið af leikvelli einu sinni.
Svekkjandi tap
„Svekkjandi tap í kvöld, ekki síst vegna þess að við vorum yfir nánast allan leikinn,“ sagði Díana við handbolta.is í kvöld en lið hennar var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:11, og hafði örlítið frumkvæði allt þar til á síðustu mínútunum að Leverkusen jafnaði, 23:23, þegar fjórar mínútur voru eftir af leiktímanum.
Sex mörk og sex stoðsendingar
Díana Dögg var markahæst hjá BSV Sachsen Zwickau með sex mörk. Hún skapaði einnig sex marktækifæri, þar af tvær stoðsendingar, vann tvö vítaköst og var einu sinni vikið af leikvelli.
BSV Sachsen Zwickau er í 10. sæti af 14 liðum deildarinnar með tvö stig eftir fjórar umferðir. Nánar er hægt að skoða stöðuna hér.
Landsliðskonurnar, Díana Dögg og Sandra, fara nánast rakleitt úr leikjunum heim til Íslands til æfinga með landsliðinu fyrir leikina í undankeppni EM á miðvikudaginn á Ásvöllum og í Þórshöfn, Færeyjum, eftir viku.