- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ár í Ólympíuleikana í París – Ísland á von um að vera með

Leikmenn og starfsmenn íslenska landsliðsins sem vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum árið 2008. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Í dag er ár þangað til að Ólympíuleikarnir verða settir í París. Vonir standa enn til þess að karlalandsliðið í handnattleik verði á meðal þátttökuliðanna 12 á leikunum. Aðeins lið tveggja þjóða eru örugg um keppnisrétt í karlaflokki, heimsmeistarar Danmerkur og gestgjafar Frakklands.

Handknattleikskeppni leikana á næsta ári verður skipt niður á tvo leikstaði. Byrjað verður í París áður en farið verður til Lille.

Tvö sæti af 12 eru frátekin

Einnig eiga lið tveggja þjóða víst sæti í handknattleikskeppni kvenna á leikunum. Auk franska landsliðsins eiga Evrópumeistarar Noregs frátekið sæti. Þetta þýðir að verði landslið Frakka og Noregs í tveimur efstu sætum HM, sem fram fer síðar á árinu, hreppir liðið í þriðja sæti sæti heimsmeistarana á Óympíuleikunum.

Árangur á EM24 skiptir máli

Sömu sögu er að segja af væntanlegu Evrópumóti karla sem haldið verður í Þýskalandi í janúar. Ef Frakkar og Danir hafna í tveimur efstu sætunum tekur bronsliðið sæti á Ólympíuleiknum. Leið íslenska landsliðsins á leikana liggur í gegnum EM 2024 eftir að eitt af efstu sætunum á HM í janúar sl. gekk liðinu úr greipum.

Álfumeistarar

Auk væntanlegra heimsmeistara í kvennaflokki og Evrópumeistara í karlaflokki öðlast álfumeistarar Afríku, Ameríku og Asíu sæti í handknattleikskeppni leikanna. Álfumótin fara fram í haust og næsta vetur.

Forkeppni í mars og apríl

Helmingur keppnisliða í hvorum flokki öðlast keppnisrétt eftir þátttöku í forkeppni sem fram fer á næsta ári.
Forkeppnin í karlaflokki verður 11. til 17. mars en 8. til 14. apríl í kvennaflokki.

Mikið undir

Leið íslenska karlalandsliðsins í forkeppnina felst í að ná sem allra bestum árangri á EM í Þýskalandi í janúar. Spánn, Svíþjóð, Þýskaland, Noregur og Ungverjaland eru þegar örugg um sæti í forkeppninni. Reyndar hefur Egyptaland einnig tryggt sér sæti í forkeppninni en verði Egyptar Afríkumeistarar losnar sæti þeirra til Evrópuþjóðar sem var næst á eftir Egyptum á HM.

Sex sinnum með frá 1972

Karlalandslið Íslands var með þegar innanhúss handknattleikur var í fyrsta skipti keppnisgrein á Ólympíuleikunum í München 1972. Síðan hefur Ísland verið með í fimm skipti, 1984, 1992, 2004, 2008 og 2012.

Íslenska landsliðið á verðlaunapalli á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Mynd/EPA

Silfur 2008

Mörgum er eflaust í fersku minni þegar íslenska landsliðið vann silfurverðlaun á leikunum Beijing 2008. Sextán árum áður tapaði Ísland fyrir Frakkalandi í viðureign um bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Barcelona. Í gær var 31 ár frá setningu leikanna í Barcelona.

Kvennahandknattleikur varð fyrst keppnisgrein á Ólympíuleikunum í Montréal í Kanada 1976. Kvennalandsliðið hefur aldrei átt þess kost að vera með.

Ólympíuhópur Íslands í handknattleik í München 1972. Fremsta röð frá vinstri: Hjörleifur Þórðarson, landsliðsnefnd, Einar Þ. Mathiesen, flokksstjóri, Ólafur Benediktsson, Gunnsteinn Skúlason, Birgir Finnbogason, Björgvin Björgvinsson, Stefán Gunnarsson, Geir Hallsteinsson og Rúnar Bjarnason, varaformaður HSÍ. Önnur röð: Viðar Símonarson, Stefán Jónsson, Sigurður Einarsson, Sigurbergur Sigsteinsson, Hjalti Einarsson, Hilmar Björnsson, þjálfari, Axel Axelsson, Jón Erlendsson, formaður landsliðsnefndar og Ágúst Ögmundsson. Í efstu röð eru Gísli Blöndal, Jón Hjaltalín Magnússon og Ólafur H. Jónsson.

Fróðlegt og skemmtilegt

Í tilefni þess að á síðasta ári voru liðin 50 ár frá þátttöku karlalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Müchsen skrifaði Sigmundur Ó. Steinarsson þrjár fróðlegar og skemmtilegar greinar fyrir handbolti.is um aðdraganda og síðar þátttöku karlalandsliðsins á leikunum. Hlekki á greinar Sigmundar er að finna hér fyrir neðan.

GREIN 1: ÓL Í 50 ÁR:​​​​​ Benedikt flutti gleðifréttir frá Madrid

GREIN 2: ÓL Í 50 ÁR: Hjalti gaf sjóvettlinga og Geir með handleggi á „kúluliðum“!​​​​​

GREIN 3: ÓL Í 50 ÁR: ​​​​​„Létum Tékka hafa okkur út í tóma vitleysu!“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -