- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sigurreifir Svisslendingar og línur skýrar í flestum riðlum

Óðinn Þór Ríkharðsson landsliðsmaður og leikmaður Kadetten Schaffhausen, Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Fjölmargir íslenskir handknattleiksmenn tryggðu sig áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildar karla í gærkvöldi þegar næstsíðasta umferð riðlakeppninnar fór fram. Kátt var í höllinni í Schaffhausen er Kadetten vann glæstan sigur á Flensburg, 25-24, í E-riðli og tryggði sér þar með áfram í 16-liða úrslit. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk fyrir Kadetten Schaffhausen en Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað hjá Flensburg.

Tvö efstu lið hvers riðils halda áfram keppni í 16-liða úrslitum sem fara fram eftir áramót. Í flestum riðlum er nú þegar ljóst hvaða lið fara áfram þó ein umferð sé eftir.

Arnór, Ýmir og Viktor öruggir áfram

Í A-riðli eru þrjú Íslendingalið og eru tvö þeirra, Rhein-Neckar Löwen með þá Arnór Snæ Óskarsson og Ými Örn Gíslason innanborðs og Nantes þar sem markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson leikur, örugg með sín sæti í 16-liða úrslitum.

Þýsku ljónin eru efst með 10 stig og Nantes fylgir á eftir með 8 stig. Á meðan sitja Stiven Tobar Valencia og hans félagar í Benfica eftir í þriðja sæti með 2 stig en liðið tapaði á heimavelli í gær fyrir Nantes, 34-38. Stiven Tobar Valencia skoraði 1 mark fyrir Benfica og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 10 skot fyrir Nantes.

Svíarnir langefstir í C-riðli

Einnig liggur það fyrir í B-riðli hvaða lið fara áfram. Hannover-Burgdorf, þar sem Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari, er á toppnum með 9 stig og er öruggt áfram ásamt pólska liðinu Górnik Zabrze, sem er með 7 stig. Þá er Tryggvi Þórisson og samherjar hans í Sävehof langefstir í C-riðli með 10 stig á meðan næstu lið eru með 4 stig.

Þá er Sporting þar sem hornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson leikur nokkuð öruggt með sæti í 16-liða úrslitum eftir úrslit leikja fimmtu umferðar í H-riðli. Orri skoraði fimm mörk er Sporting burstaði botnlið Chobry Glogow 22:35 á útivelli. Portúgalska liðið er því með 6 stig þegar ein umferð er eftir, tveimur stigum á undan ungverska liðinu Tatabánya, sem tapaði gegn toppliði CSM Constanta í gær. Sporting stendur jafnframt betur í innbyrðis viðureignum gegn Tatabánya og á því nokkuð greiða leið í 16-liða úrslit jafnvel þótt að liðið tapi í lokaumferðinni.

Úrslit úr öðrum leikjum gærdagsins ásamt stöðu í öllum riðlum má finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -