- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stefnir í að fjögur karlalið taki stefnuna til Evrópu

Jón Bjarni Ólafsson, Sigtryggur Daði Rúnarsson og Jóhannes Berg Andrason leikmenn FH og ÍBV. Ljósmynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Fjögur íslensk lið eiga rétt á að taka þátt í Evrópukeppni félagsliða í karlaflokki á næsta keppnistímabili. Um er að ræða Íslandsmeistara ÍBV, deildarmeistara Vals, bikarmeistara Aftureldingar og FH sem hafnaði í öðru sæti í Olísdeildinni, næst á eftir deildarmeisturunum.

Valur, KA, Haukar og ÍBV sendu lið til leiks í Evrópukeppni félagsliða á síðustu leiktíð. Valur var fyrst íslenskra liða með í Evrópudeildinni og komst í 16-liða úrslit. KA, ÍBV og Haukar voru með í Evrópubikarkeppninni.

Bikarmeistarar Aftureldingar geta kætt stuðningsmenn sína með þátttöku í Evrópukeppni í haust. Mynd/Raggi Óla

Þrjú lið þegar ákveðin

Frestur til þess að senda inn umsóknir til Handknattleikssambands Evrópu um þátttöku rennur út 4. júlí. Eftir því sem næst verður komist hafa þrjú lið þegar ákveðið að taka þátt: Afturelding, FH og Valur. Öll eiga þau rétt á þátttöku í Evrópubikarkeppninni (áður Áskorendakeppnin).

Eftir því sem næst verður komist liggja Eyjamenn undir feldi. Þeir hafa verið með í Evrópukeppni á undanförnum árum hafi þeir átt þess kost.

Íslandsmeistarar ÍBV geta sótt um þátttöku í undankeppni Evrópudeildarinnar eins og Íslandsmeistarar Vals 2022 gerðu í fyrra. Líklegra er að ÍBV taki slaginn í Áskorendakeppninni. Kemur þar líklega tvennt til: gríðarlegur kostnaður við þátttökuna og sú staðreynd að íþróttamiðstöðin í Vestmannaeyjum stendur ekki undir kröfum sem gerðar eru til keppnishúsa í Evrópudeildinni.

Meistaradeild Evrópu er ekki opin fyrir þátttöku íslenskra félagsliða frekar en á síðustu árum. Hvorki í karla- eða kvennaflokki.

Eins og kom fram í gær senda ÍBV og Valur lið sín til þátttöku í Evrópukeppni félagsliða í kvennaflokki í haust. Valur stefnir á undankeppni Evrópudeildarinnar en ÍBV verður með í Evrópubikarkeppninni. Fram og Stjarnan áttu rétt á að vera með en kusu að gefa hann frá sér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -