- Auglýsing -
- Auglýsing -

Strákarnir sýndu mikinn karakter að vinna leikinn eftir mikið mótlæti

Haraldur Þorvarðarson, Einar Jónsson, Breki Hrafn Árnason, Eiður Rafn Valsson, Framarar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Við vorum mikið betri allan leikinn, að mínu mati. Það er bara ákveðin ástæða fyrir því að við vorum ekki búnir að gera út um leikinn löngu fyrr. Ég er á hinn bóginn mjög ánægður með strákana sem sýndu geggjaðan karakter,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram í samtali við handbolta.is í gær eftir nauman sigur á Stjörnunni, 32:31, í Mýrinni í Garðabæ í 9. umferð Olísdeildar karla í handknattleik.

Aron Máni Daðason tryggði Fram bæði stigin þegar hann varði síðasta markskot Stjörnunna á lokasekúndu leksins, eins sjá má hér.

Þjónar ekki tilgangi

„Strákarnir sýndu mikinn karakter að vinna leikinn eftir mikið mótlæti, meira en ég hélt að væri til í íslenskum handbolta,” sagði Einar og beit í tunguna á sér í stað þess að útskýra í hverju þetta mikla mótlæti var fólgið. „Ég nenni ekki að tala um þetta. Það þjónar engum tilgangi.“

Fram komst upp í fjórða sæti Olísdeildar með sigrinum. Liðið hefur 11 stig að loknum níu leikjum. Stjarnan er í 10. sæti með fimm stig eins og HK í 11. sæti.

Sóknarleikurinn gekk vel

Spurður hvað hefði lagt grunninn að forskoti Framara sem var talsvert ákafari í síðari hálfleik sagði Einar að í fyrsta lagi hafi hans lið breytt taktinum í vörninni, leikmenn hafi sjaldnar verið vikið af leikvelli auk þess sem Stjarnan fékk ekki eins títt vítaköst.

„Uppstilltur sóknarleikur okkar var mjög góður allan leikinn. Við vissum alltaf að við fengjum færi, málið væri bara að skora úr færunum. Við nýttum færin okkar á þessum kafla mjög vel.“

Sjö á sex breytti miklu

„Að sama skapi var vel gert hjá Hrannari að skipta yfir í sjö á sex og halda því ótrauður áfram þótt við skoruðum þrjú mörk í autt Stjörnumarkið. Sjö á sex riðlaði aðeins varnarleik okkar og varð til þess að Stjarnan komst inn í leikinn aftur,“ sagði Einar ennfremur sem er skiljanlega ánægður með að vera kominn í fjórða sæti deildarinnar.

Verðum að halda áfram

„Við höfum leikið vel upp á síðkastið og verðum að halda því áfram. Framundan er hörkurprógramm og meðal annars bikarleikur,“ sagði Einar Jónsson í samtali við handbolta.is eftir sigurinn á Stjörnunni í Mýrinni í gærkvöld.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -