- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur vann toppslaginn – situr ósigraður í efsta sæti

Valur er kominn áfram í Evrópubikarkeppninni. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Valur tyllti sér á topp Olísdeildar kvenna með naumum sigri á Fram, 25:24, í sannkölluðum toppslag tveggja efstu liðanna í Framhúsinu í dag. Leikurinn var jafn, hraður og bráðskemmtilegur þótt niðurstaðan hafi orðið mis ánægjuleg fyrir leikmenn liðanna. Valur hefur þar með ekki enn tapað stigi í deildinni og situr í efsta sæti með 10 stig eftir fimm leiki. Fram er stigi á eftir en hefur lagt sex leiki að baki. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 14:14.


Spennan var mikil frá upphafi til enda. Fram átti þess kost að jafna metin í lokin. Eins fékk Valur möguleika á að vinna með tveggja marka mun. Liðin fengu eina sókn hvort á loka mínútunni en þær nægðu ekki til þess að bæta við mörkum. Fram vann boltann þegar 22 sekúndur voru til leiksloka. Vörn Vals var traust og neyðarskot Hildar Þorgeirsdóttur á síðustu sekúndu missti marks.


Valur byrjaði leikinn betur og skoraði t.d. fjögur af fyrstu fimm mörkum leiksins. Fram lagði mikla áherslu á stöðva Theu Imani Sturludóttur sem hefur farið mikinn í leikjum Vals upp á síðkastið. Meðan Framarar höfðu gætur á Theu þá losnaði um Mariam Eradze og Morgan Marie Þorkelsdóttur.

Þær báru upp leik Valsliðsins lengi vel en liðið var með eins til þriggja marka forskot allt til á lokamínútum fyrri hálfleiks að Framliðinu tókst að þétta raðirnar og jafna metin. Munaði miklu að Hafdís Renötudóttir hresstist í markinu, varði nokkur skot og jafnaði metin, 14:14, rétt áður en fyrri hálfleikur var á enda.

Stórleikur markvarðanna

Síðari hálfleikur var afar jafn og spennnadi. Liðin skiptust á um vera með yfirhöndina framan af hálfleiknum en Valsliðinu lánaðist að ná frumkvæðinu þegar á leið. Munaði þar miklu að Saga Sif Gísladóttir varði allt hvað af tók og var með 55% markvörslu í hálfleiknum. Fylgdi hún fordæmi Söru Sifjar Helgadóttur sem staðið hafði vaktinu í marki Vals í fyrri hálfleik.

Valur hélt eins til tveggja marka forskoti síðustu tíu mínúturnar. Fram átti þess kost að jafna metin úr lokasókn sinni en fékk ekki til þess almennilegt skotfæri. Skot Hildar geigaði eins og áður er rakið.


Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 5, Emma Olsson 4, Karen Knútsdóttir 3, Hildur Þorgeirsdóttir 2, Stella Sigurðardóttir 2, Harpa María Friðgeirsdóttir 2, Hafdís Renötudóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, 37,5%.
Mörk Vals: Mariam Eradze 5, Morgan Marie Þorkelsdóttir 5, Auður Ester Gestsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 4/1, Lilja Ágústsdóttir 2/1, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gíslasdóttir 11, 55% – Sara Sif Helgadóttir 9, 40,9%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild kvenna má sjá hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -