Danir og Svíar töpuðu síðustu leikjum sínum í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í kvöld. Danir lágu fyrir Slóvenum, 28:25, og Svíar töpuðu með 10 marka mun fyrir Norðmönnum, 33:23. Svíar lögðu sig ekki mikið fram í leiknum. Nokkrir af sterkustu leikmönnum liðsins fengu að kasta mæðinni fyrir átökun í undanúrslitaleiknum á föstudaginn við Frakka.
Danir léku svipaðan leik í lokaleik milliriðlakeppninnar og þeir léku á EM fyrir tveimur árum þá við lítinn fögnuð Íslendinga. Danir gáfu varamönnum tækifæri auk þess sem þeir reyndu eitt og annað í leik sínum sem þeir hafa ekki verið að reyna fram til þessa í mótinu. Olli það tapi gegn áköfum Slóvenum.
Danir mæta annað hvort Ungverjum eða Þjóðverjum í undanúrslitum mótsins á föstudaginn. Fyrir lokaumferðina í dag var ljóst að danska og sænska landsliðið var komið áfram í undanúrslit. Úrslitin skiptu engu máli, þannig lagað.
Slóvenar leika um fimmta sæti á EM á föstudaginn. Hver andstæðingurinn verður liggur ekki fyrir fyrr en keppni í milliriðli eitt verður lokið á morgun.

Portúgal og Holland skildu jöfn í fyrsta leik dagsins í lokaumferð milliriðils tvö, 33:33, í Hamborg. Portúgal hafnar þar með í fjórða sæti á eftir Slóvenum. Noregur hreppir fimmta sæti og hollenska landsliðið rekur lestina með eitt stig og getur alveg gleymt forkeppni Ólympíuleikanna. Portúgalar eru á hinn bóginn öruggir með annað sætið í forkeppninni sem Evrópukeppnin mun að öllum líkindum gefa af sér.
Lokastöðuna í milliriðli tvö er að finna í greininni hér fyrir neðan: