- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aalborg Håndbold staðfestir komu Arons í sumar – myndskeið

Aron Pálmarsson með keppnispeysu Aalborg í höndunum. Mynd/Aalborg Håndbold
- Auglýsing -

Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold staðfesti í morgun fregnir sem láku út á laugardaginn um að Aron Pálmarsson gangi til liðs við félagið í sumar. Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við danska liðið sem ætlar sér enn stærri hluti á næstu árum en það hefur þegar afrekað.


Aron hefur í þrjú og hálft ár verið í herbúðum spænsku meistaranna, Barcelona, og orðið spænskur meistari í fjögur skipti, síðast í gær.
Aron lék með Kiel frá 2009 til 2015, var hjá Veszprém í Ungverjalandi frá 2015 til 2017.

Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold sem er m.a. komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu og er í keppni um að verja danska meistaratitilinn.

Auk Arons koma Svíinn Jesper Nielsen, Norðmaðurinn Kristian Bjørnsen og Daninn Martin Larsen til félagsins í sumar. Mikkel Hansen, fremsti handknattleiksmaður Dana, er væntanlegur til Aalborg sumarið 2022. Einnig hefur verið rætt um að danski landsliðsmaðurinn Mads Mensah komi til Álaborgar sumarið 2022.

Aalborg Håndbold A/S varð til árið 2011 eftir að rekstur AaB A/S hafði ekki gengið sem skildi. Liðið hefur fimm sinnum orðið danskur meistari, 2010, 2013, 2017, 2019 og 2020. Bikarmeistari var liðið 2018 og vann meistarakeppni Danmerkur, meistarar meistaranna, 2012, 2019 og 2020.


Nokkuð hefur verið um Íslendinga hjá félaginu og forverum þess. Má þar nefna Ingimund Ingimundarson, Janus Daða Smárason, Ómar Inga Magnússon, Stefán Rafn Sigurmannsson og Arnór Atlason sem lauk ferli sínum hjá liðinu 2018 og var í kjölfarið ráðinn aðstoðarþjálfari við hlið Stefan Madsen. Aron Kristjánsson þjálfaði Aalborg með frábærum árangri frá 2016 til 2018.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -