- Auglýsing -
- Auglýsing -

Félögin standa sig illa í dómaramálum – sex þeirra skila auðu

Ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson, dómarar, hafa staðið í ströngu í vetur eins og aðrir dómarar hafa vafalaust lesið vel yfir nýjan reglur. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Handknattleiksfélög landsins standa sig illa við að tilnefnda dómara til starfa og hefur þeim aðeins tekist að tilnefna rétt rúmlega helming þess fjölda sem þeim ber að gera. Af 19 félögum þá skila sex þeirra, eða nærri þriðjungur auðu, þegar kemur að dómurum. Aðeins tvö félög hafa tilnefnt þann fjölda dómara sem þeim ber.


Vegna þessa greiða félögin milljónir króna í sektir og virðast sektirnar ekki duga til að að ýta við félögunum að gera betur.


Miðað við fjölda liða á Íslandsmótinu í handknattleik þá eiga liðin að tilnefna 62 dómara. Staðan er hinsvegar sú að þau hafa aðeins tilnefnt rétt rúmlega helming, eða 33.

Munaði litlu

Í skýrslu formanns dómaranefndar HSÍ, sem er hluti af ársskýrslu sambandsins skrifar Reynir Stefánsson formaður dómaranefndar að grípa verði til harðari aðgerða. Þar kemur ennfremur fram að litlu hafi mátt muna vegna fæðar dómara að fresta hafi þurft leikjum þegar kórónuveiran herjaði af mestum þunga í upphafi ársins.

Fækkar um tvö

Hvert félag skal útvega tvo dómara fyrir hvert meistaraflokkslið sem skráð er til keppni (að U liðum undanskildum). Aðeins tvö félög, Fram og Selfoss, ná tilskyldum fjölda sem er tveimur félögum færra en fyrir ári síðan, eftir því sem fram kemur í ársskýrslu Handknattleikssambands Íslands. Grótta, KA/Þór, Kórdrengir, Stjarnan, Víkingur og Vængir Júpiters skila auðu, hafa enga dómara á sínum snærum til að dæma í deildarkeppninni.

Hætta afskiptum af æfingaleikjum

„Mér hefur verið tíðrætt um fjölgun dómara undanfarin ár en hef því miður talað fyrir daufum eyrum. Einstaka félög hafa tekið sín mál fastari tökum en betur má ef duga skal, eins og fram hefur komið í skýrslu minni er þörf á harðari aðgerðum. Á næsta keppnistímabili mun dómaranefnd og skrifstofa HSÍ því ekki hafa neina milligöngu með dómara á æfingaleiki, hvort sem er á undirbúningstímabili eða á meðan keppnstímabili stendur. Félögunum er bent á að nota sína dómara í æfingaleikjum og er það von okkar að þá geri félögin sér betur grein fyrir mikilvægi þess að ala upp dómara,“ segir orðrétt í skýrslu formanns dómaranefnda HSÍ, Reynis Stefánssonar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -