- Auglýsing -
- Auglýsing -

Einstakt afrek Vipers – Lunde á spjöld sögunnar

Evrópumeistarar Vipers. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Norska meistaraliðið Vipers Kristiansand vann í dag það einstaka afrek að standa þriðja árið í röð á efsta palli evrópsks handknattleiks í kvennaflokki. Vipers vann ungverska liðið FTC (Ferencváros) í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í handknattleik, 28:24, að viðstöddum metfjölda áhorfenda í MVM Dome íþróttahöllinni í Búdapest.

Einstakt afrek Lunde

Markvörður Vipers, Katrine Lunde, skráði sig enn einu sinni á spjöld sögunnar því hún var í sjöunda sinn í sigurliði í Meistaradeild Evrópu. Lunde sem varð 43 ára gömul 30. mars fór hamförum í markinu Vipers í úrslitaleiknum, varði 16 skot, og var með 47% hlutfallsmarkvörslu þegar upp var staðið.

Katrine Lunde markvörður t.v. Mynd/EPA

Jafnaði metin við Xepkin

Auk þess að hafa verið í sigurliði Vipers í Meistaradeildinni þrjú síðustu tímabil vann Lunde Meistaradeildina með danska liðinu Viborg 2009 og 2010 og Györ frá Ungverjalandi 2013 og 2014. Lunde jafnaði metin við Andrei Xepkin sem vann Meistaradeildina sex sinnum með karlaliði Barcelona og einu sinni með Kiel.

Silfurlið Meistaradeildar Evrópu, lið FTC. Mynd/EPA

Vipers var með yfirhöndina frá upphafi til enda. Leikmenn FTC náðu að minnka muninn í eitt mark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, 14:13. Vonir stóðu til að sá neisti sem leikmenn FTC kveiktu í lok fyrri hálfleiks myndi loga áfram í síðari hálfleik. Sú varð ekki raunin. Leikmenn Vipers tóku öll völd á leikvellinum. Vörnin var frábær og Lunde markvörður fór á kostum. Fljótlega var forskot Vipers komið í sjö mörk, 21:14. Mestur varð munurinn átta mörk, 24:16. Upp því fór þjálfari Vipers, Ole Gustaf Gjekstad, að tefla fram lítt reyndari leikmönnnum liðsins. Gjekstad, sem þjálfað hefur Vipers í fimm ár, kvaddi liðið eftir þennan leik en hann flytur til Óðinsvéa í sumar.

Mörk Vipers Kristiansand: Anna Vyakhireva 6, Sunniva Næs 6, Jamina Roberts 5, Marketa Jerabkova 4, Jana Knedlikova 3, Tuva Høve 1, Katarina Jezic 1, Lysa Tchaptchet 1, Ragnhild Valle 1.
Mörk FTC: Emily Bölk 5, Andrea Lekic 5, Szandra Szollosi 3, Dragana Cviujic 3, Greta Marton 2, Antje Malestein 2, Katrin Klujber 2, Anett Kisfaludy 1, Alicia Stolle 1.


Gleðbeittir leikmenn Györ með bronsverðlaunin. Mynd/EPA

Toft var erfið Esbjergliðinu

Ungverska meistaraliðið Györ vann Esbjerg, 30:29, í leiknum um bronsverðlaunin. Þar með fóru leikmenn Esbjerg heim frá úrslitahelginni án verðlauna annað árið í röð. Danski landsliðsmarkvörðurinn, Sandra Toft, var e.t.v. sá leikmaður sem kom í veg fyrir að Esbjerg hirti bronverðlaunin. Toft átti stórleik í marki Györ og varði mikilvæg skot á lokakaflanum.

Mörk Györ: Ana Gros 6, Stine Oftedal 5, Linn Blohm 4, Estelle Nze-Minko 3, Kari Dale 3, Viktoria Lukacs 2, Line Haugsted 2, Eun Hee Ryu 1, Csenge Fodor 1, Sandra Toft 1.
Mörk Esbjerg: Vilde Ingstad 6, Henny Ella Reistad 5, Nora Mørk 4, Kristine Breistøl 4, Beyza Turkoglu 3, Mette Tranborg 2, Kathrine Heindahl 2, Marit Jacobsen 1.

Leikmenn Esbjerg stilltu sér upp með þátttökuverðlaun sínum um hálsinn. Mynd/EPA

Vyakhireva best – Reistad markahæst

Rússneska handknattleikskonan, Anna Vyakhireva leikmaður Vipers, var valin mikilvægasti leikmaður úrslitahelgarinnar.
Henny Reistad, leikmaður Esbjerg, varð markadrottning Meistaradeildarinnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -