Stórleikur Hafdísar Renötudóttur í marki Fram var það sem skildi Fram og Stjörnuna að þegar upp var staðið frá viðureign liðanna í 1. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Framhúsinu í dag, lokatölur, 24:22. Fram var fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10, eftir að hafa ráðið lögum og lofum síðustu tíu mínúturnar í hálfleiknum.
Hafdís varði allt hvað af tók í leiknum og víst er að hún mikill happafengur fyrir liðið og afar gleðilegt að sjá markvörðinn í góðu formi á leikvellinum. Hún hafði verið lengi fjarverandi vegna höfuðmeiðsla vegna ítrekaðra höfuðhögga.
Stjarnan var sterkari framan af leiknum í dag, ekki ósvipað og gegn KA/Þór í átta liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í vikunni. Framliðið sótti í sig veðrið þegar á leið fyrri hálfleik eftir að Karen Knútsdóttir kom því í fyrsta sinn yfir, 8:7, með marki úr vítakasti. Það sem eftir var af hálfleiknum voru Framarar mikið sterkari.
Síðari hálfleikur var hinsvegar slakur af hálfu Fram og reyndar Stjörnunnar einnig. Færa má rök fyrir því að hafi Hafdís ekki staðið vaktina í markinu af árverkni hefði illa getað farið hjá Framkonum. Mikið var um slæmar sendingar leikmanna á milli og mörg skot rötuðu ekki rétta leið. T.d. var þetta ekki leikurinn hennar Ragnheiðar Júlíusdóttir, markadrottningar síðasta keppnistímabils. Samkvæmt tölfræði HBStatz þá átti hún 15 skot en aðeins fjögur leiddu til marks.
Alls tapaði Fram boltanum 15 sinnum.
Stjarnan var lengst af fjórum til fimm mörkum undir þrátt fyrir gallana á leik Fram. Það segir e.t.v. eitt og annað um leik Stjörnunnar einnig. Garðbæingar sóttu aðeins í sig veðrið á allra síðustu mínútunum og hefðu með heppni a.m.k. getað sloppið með eins marks tap.
Mörk Fram: Emma Olsson 6, Hildur Þorgeirsdóttir 5, Karen Knútsdóttir 4/2, Ragnheiður Júlíusdóttir 4, Harpa María Friðgeirsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Stella Sigurðardóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, 41,7%.
Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 7/4, Helena Rut Örvarsdóttir 4, Elísabet Gunnarsdóttir 3, Anna Karen Hansdóttir 2, Stefanía Theodórsdóttir 2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1, Britney Cots 1, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1, Katla María Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 12, 33,3%.
Alla tölfræði leiksins er hægt að finna hjá HBStatz.