- Auglýsing -
- Annar landsliðsmarkvörður Færeyinga, Aleksandar Lacok, hefur samið við TSV St.Otmar Handball St.Gallen í Sviss. Lacok lék með Lugi frá Lundi í Svíþjóð á nýliðnu keppnistímabili. Lacok myndar ásamt Pauli Jacobsen markvarðateymi færeyska landsliðsins sem hefur unnið sér inn sæti á EM karla á næsta ári. Einnig er Lacok markvörður 21 árs landsliðsins sem mætir íslenska landsliðinu á HM í Póllandi í næsta mánuði.
- Simon Ernst fyrirliði þýska liðsins Leipzig sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar og Andri Már Rúnarsson leikur með, meiddist illa á hné á mánudagskvöldið í viðureign við HSV Hamburg. Ernst verður að minnsta kosti úr leik það sem eftir er leiktíðar.
- Krems leikur við Alpla Hard um austurríska meistaratitilinn í handknattleik karla. Krems vann meistara síðasta árs í annarri viðureign liðanna í gær, 31:26. Linz varð óvænt meistari á síðasta ári.
- Alpla Hard, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar og Tumi Steinn Rúnarsson leikur með, varð deildarmeistari og Krems hafnaði í öðru sæti. Fyrsti úrslitaleikurinn fer fram í Bregenz 30. maí.
- Þýski handknattleiksmaðurinn Tobias Reichmann hefur ákveðið að hætta handknattleik í vor og leggja skóna á hilluna margumtöluðu. Reichmann lýkur tímabilinu með Füchse Berlin en fjórir leikir eru eftir hjá liðinu í deildinni auk leikja í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í Köln um miðjan júní.
- Reichmann er 36 ára gamall var m.a. í þýska landsliðinu sem varð Evrópumeistari undir stjórn Dags Sigurðssonar 2016. Reichmann hefur leikið með mörgum bestu liðum Þýskalands á ferlinum auk þess að vera með Kielce í Póllandi um þriggja ára skeið. Hann gekk óvænt til liðs við Emsdetten sem þá var í 2. deild sumarið 2022 og var hjá liðinu í eitt ár.
- Sumarið 2023 sagðist Reichmann vera hættur í handknattleik en tók óvænt upp þráðinn með Rhein-Neckar Löwen snemma á síðasta ári þegar margir leikmenn liðsins voru fjarverandi vegna meiðsla. Síðasta sumar samdi Reichmann við Füchse Berlin til eins árs en hann er Berlínarbúi að upplagi, fæddist í austurhluta Berlínar rúmu ári áður en Berlínarmúrinn féll.
- Grindsted og Skive mætast í oddaleik í umspili dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla. Grindsted vann aðra viðureign liðanna í gær, 37:29. Skive hafði naumlega betur á heimavelli Grindsted í fyrsta leiknum, 32:31. Oddaleikurinn fer fram á sunnudaginn.
- Auglýsing -