- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukar fóru illa að ráði sínu í fyrsta úrslitaleiknum

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Haukar fór illa að ráði sínu í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í kvöld. Liðið tapaði niður þræðinum á lokakaflanum og tapaði með eins marks mun, 28:27, í N1-höll Vals við Hlíðarenda. Haukar virtust með öll ráð, að því er virtist, í hendi sér eftir miðjan síðari hálfleik og fjögurra marka forskot, 24:20, þegar skyndilega brást á með undanhaldi.

Valur hefur þar með unnið 22 leiki í röð í deild og bikar á keppnistímabilinu. Síðasta tapaði Valur fyrir Haukum 21. október á síðasta ári.

Næsta viðureign liðanna verður á Ásvöllum á sunnudaginn. Hiklaust verður flautað til leiks klukkan 18.

Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 16:16. Haukar voru sterkari í hálfleiknum og með yfirhöndina nær því frá upphafi.

Getur reynst dýrt

Tapið getur reynst Haukum afar dýrt þegar upp verður staðið því það hefði svo sannarlega getað reynst dýrmætt að ná frumkvæðinu í úrslitarimmunni með sigurleik á útivelli. Sigri sem var alls ekki fjarlæg von lengi vel að þessu sinni. Vinna þarf þrjá leiki til þess að hreppa Íslandsmeistaratitilinn. Haukar höfðu unnið fimm viðureignir og ekki tapað einni í úrslitakeppninni þegar kom að leiknum á Hlíðarenda.

6:0 kafli Vals

Haukar voru með fjögurra marka forskot, 24:20, og byr í seglum í N1-höllinni 13 mínútum fyrir leikslok. Sóknarleikur Vals hafði ekki gengið sem skildi og misjafnlega hafði tekist til við varnarleikinn. Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, tók sitt þriðja leikhlé á fyrrnefndum tímapunkti. Eftir hléið skoraði Valur sex mörk í röð án þess að Haukum lánaðist að svara, þar á meðal nýtti Valur afar vel yfirtölu sem myndaðist um skeið þegar Elínu Klöru Þorkelsdóttur var vikið af leikvelli í stöðunni, 24:21, fyrir Hauka.


Eftir að Valur komst yfir voru Haukar í eltingaleik það sem eftir var. Thea Imani Sturludóttir kom Val yfir, 28:27, þegar 45 sekúndur voru eftir að leiktímanum. Haukar tóku sitt síðasta leikhlé í kjölfarið. Upp úr því náði liðið ágætri sókn en sending samherja á milli 12 sekúndum fyrir leikslok rataði ekki rétta leið. Þar með var draumur Hauka um framlengingu úti og þessi kafli úrslitaævintýrisins um leið.

Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 7, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/5, Elín Rósa Magnúsdóttir 5, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 3, Morgan Marie Þorkelsdóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 17, 38,6%.

Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 10, Sara Odden 5, Sara Katrín Gunnarsdóttir 4, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Birta Lind Jóhannsdóttir 2, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1, Ragnheiður Sveinsdóttir 1, Alexandra Líf Arnarsdóttir 1.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 10/1, 29,4% – Elísa Helga Sigurðardóttir 1, 25%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Handbolti.is var á Hlíðarenda og fylgdist með leiknum í textalýsingu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -