- Auglýsing -
Lilja Ágústsdóttir stökk beint inn í lið Lugi í kvöld þegar liðið sótti Önnereds heim til Gautaborgar í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna.
Lilja gekk til liðs við Lundarliðið í byrjun vikunnar með nánast engum fyrirvara eftir að vinstri hornamaður liðsins meiddist alvarlega á sunnudagskvöldið. Hún náði tveimur æfingum með liðinu áður en hún stakk sér út í djúpu laugina í kvöld.
Lilja lét að sér kveða strax í fyrsta leik og skoraði eitt mark í tveimur skotum og var einnig einu sinni vísað af leikvelli. Alls lék Lilja með í um 25 mínútur. Lugi tapaði í Gautaborg, 28:25. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 13:13.
Ásdís Þóra, eldri systir Lilju, er einnig á mála hjá Lugi. Hún er að jafna sig eftir krossbandaslit fyrir nærri ári og er ekki byrjuð að leika með liðinu.
Lugi er í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig eftir 13 leiki. Sävehöf og Skuru eru efst og í nokkrum sérflokki liða í deildinni. Þau hafa 24 stig hvort.
- Auglýsing -